Vísitala neysluverðs

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:56:53 (4896)


[01:56]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ótti hv. þm. er ástæðulaus vegna þess að þær breytingar sem voru gerðar á vísitölunni 1989 voru afar óheppilegar því þá var þáttur kauplagsins settur inn með mjög þungum hætti, þá voru menn að lækka kaup í landinu, það var kaupmáttarhrun sem þá átti sér stað og menn ætluðu að lækka vísitöluna í leiðinni en menn vissu að ef landinu miðaði rétt áfram þá mundi kaup væntanlega hækka meira í landinu en annar kostnaður, sérstaklega framfærslukostnaður, þannig að til lengri tíma var þetta afskaplega vond ráðstöfun.
    Það er enginn vafi á því að þessi vísitala er heilbrigðari. Það er engin ástæða til að ætla það að sú breyting að taka mið af þróun verðlags úti á landi muni hækka vísitöluna vegna þess að þú núllstillir dæmið á tilteknum punkti og síðan er það sú verðlagsþróun sem á sér stað eftir það sem mælist. Það er engin ástæða til þess að ætla það að verðlag á landsbyggðinni muni hækka meira en á höfuðborgarsvæðinu héðan í frá þó að það kunni að vera einhver verðmunur þar á milli nú. Þannig að ég geri ekki ráð fyrir að þarna sé um erfiðleika að ræða.
    Í annan stað er það stór kostur að eftir þetta er byggt á vísitölu sem er alþjóðlega þekkt. Lánskjaravísitalan er hvergi til nema hér. Þessi vísitala er alþjóðlega þekkt vísitala og viðmiðun þannig að það þarf ekki að útskýra það fyrir neinum hvaða vísitölu við notum eftir þessa breytingu. Lánskjaravísitala var algjörlega sérstök íslensk uppfinning sem ætíð þurfti að útskýra fyrir erlendum aðilum sem tóku mið af slíkri fjárfestingu. Hér eftir verður líka þannig um hnútana búið að þessum vísitölugrundvelli verður ekki breytt með reglugerð heldur verður þá lagasetning að koma til þannig að allur verður þessi umbúnaður miklu traustari eftir þessa breytingu. Eini gallinn við breytinguna er að við erum að hringla með vísitöluna en við erum þó sem betur fer að fara með hana í rétta átt en ekki ranga eins og gerðist 1989.