Vísitala neysluverðs

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:58:58 (4897)


[01:58]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg einmitt að það hefði verið betra að afnema vísitöluna þó í áföngum væri en að nota framfærsluvísitöluna. Hvað það varðar að ekki muni verða nein sérstök hækkun á vísitölunni þó farið sé að miða meira við vöruverð á landsbyggðinni þá hafði ég ekki skilið þessa breytingu svo að það ætti að núllstilla vísitöluna við þessar breytingar núna heldur halda henni áfram frá þeim grunni sem hún er í dag. En það má vera og sjálfsagt hefur hæstv. forsrh. rétt fyrir sér í því ef það er þannig. En ég held að miðað við það sem er í löndunum í kringum okkur, þar sem yfirleitt er ekki notuð lánskjaravísitala til þess að miða við fjárskuldbindingar, þá hefði verið betra að við færðum okkur í þá átt heldur en breyta núna einu sinni enn lánskjaravísitölunni, miða hana við annað, þó ég sé út af fyrir sig sammála því

að taka launahlutann út úr því ég held að það hafi verið mistök að hafa hann. En eins og ég segi held ég að hitt hefði verið betra.