Vaxtalög

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:24:02 (4908)


[02:24]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að það hefði átt að taka í taumana þegar menn sáu hvernig þessi lög léku fólk og fyrirtæki í landinu. Það var ekki gert. Ég held að það sé óþarfi fyrir menn að hæla sér af þessum lögum. Menn ættu miklu frekar að horfa í eigin barm og velta fyrir sér hvers vegna það gat ekki orðið pólitísk samstaða um að koma í veg fyrir þá ógæfu sem hefur fylgt þessu og sem menn núna virðast ætla að leyfa sér að gleyma. Mér finnst það vera ósvífni af hæstv. ráðherra og þingmönnum að koma hér í ræðustól á Alþingi til þess að hælast um yfir þessum lögum eins og það sé hægt að gleyma því hvernig hefur farið fyrir bæði fólki og fyrirtækjum í framhaldi af þessari lagasetningu. Ég held að það sé ekki gott að ganga þannig fram. Ég held að menn séu líka núna að standa saman eða leita samkomulags um það að breyta frá þessum lögum vegna þess að þau eru ekki góð. Og hvers vegna er verið að ganga þessa göngu núna? Það er mín skoðun að það eigi að afnema algerlega þessi ákvæði og það sé óeðlilegt að farið sé öðruvísi með eignir sem heita peningar í þjóðfélaginu heldur en aðrar eignir. Auðvitað á allt að þola samkeppnina, það á allt að þola verðrýrnun og það er óeðlilegt að taka stærðir út í þjóðfélaginu og verðtryggja þær sérstaklega.