Atvinnuleysistryggingar

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:48:50 (4917)


[02:48]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Frv. felur í megindráttum í sér fimm efnisatriði.
    Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar vegna laga nr. 99/1994, en með þeim var VI. kafli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem fjallaði um atvinnuleysisbætur, felldur brott. Af þessari lagabreytingu leiðir að lög um atvinnuleysistryggingar taka nú til opinberra starfsmanna og nauðsynlegt er að gera breytingar á þeim með tilliti til þess, sbr. 1., 5. og 7. gr. frv. og II. bráðabirgðaákvæði þess. Tekið skal fram að samráð var haft við Bandalag háskólamanna, BHMR, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasamband Íslands við samningu þessara ákvæða frv. og hafa þessir aðilar lagt mikla áherslu á að

frv. nái fram að ganga á þinginu.
    Aðalbreytingarnar eru þær að veita BHMR, BSRB, Sambandi ísl. sveitarfélaga og fjmrn. aðild að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem verður að teljast eðlilegt með hliðsjón af því að opinberir starfsmenn falla nú undir lög um atvinnuleysistryggingar og til samræmis við það að samkvæmt núgildandi lögum eiga Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasambandið fulltrúa í stjórninni.
    Við þessa breytingu fjölgar um fjóra í stjórninni og eru stjórnarmenn þar með orðnir ellefu. Ljóst er að þessi fjölgun getur gert starf stjórnarinnar þungt í vöfum og því er gert ráð fyrir því að hún geti skipt með sér verkum á þann hátt að hún starfi í tveimur hlutum sem hvor fyrir sig geti verið ályktunarhæfur. Er gert ráð fyrir því að stjórnin setji sér sjálf reglur um störf sín, þar á meðal um það hvort og hvernig hún skiptir með sér verkum. Formaður skal sitja fund í báðum hlutum stjórnarinnar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef stjórnin skiptist þannig að tala stjórnarmanna er jöfn.
    Aðrar breytingar eru ekki lagðar til á stjórn sjóðsins. Það er talið rétt að gera ekki frekari breytingar á skipun stjórnarinnar fyrr en lögin verði endurskoðuð í heild sinni. Einnig var talið rétt að eftirláta Alþingi að taka afstöðu til þess hvort rétt væri að hverfa frá því fyrirkomulagi að fjórir stjórnarmenn séu kjörnir af Alþingi en með því móti væru stjórnarmenn sjö eins og nú er. Samkvæmt lögunum skal ný stjórn skipuð að loknum alþingiskosningum.
    Í frv. er ákvæði um skipun úthlutunarnefnda atvinnuleysisbóta fyrir opinbera starfsmenn, sbr. 7. gr. þess. Í 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að úthlutunarnefnd skuli skipuð þremur mönnum frá því stéttarfélagi eða félagasambandi sem hlut á að máli, einu frá Vinnuveitendasambandi Íslands og einu frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga. Það er ljóst að þessi skipan getur ekki átt við um opinbera starfsmenn og nauðsynlegt er að kveða sérstaklega á um skipun úthlutunarnefndar fyrir þá. Ákvæðið byggir á því að sams konar fyrirkomulag sé á úthlutun atvinnuleysisbóta til opinberra starfsmanna og annarra launþega. Þótti rétt að róttækari breytingar á þessu fyrirkomulagi biðu heildarendurskoðunar laganna.
    Ákvæðið felur í sér það frávik frá 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna að fjöldi úthlutunarnefnda fyrir opinbera starfsmenn takmarkist við bandalög opinberra starfsmanna, þ.e. annars vegar Bandalag háskólamanna, BHMR og hins vegar Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og að eingöngu verði skipaðar sérstakar úthlutunarnefndir fyrir þau stéttarfélög sem standa utan þessara bandalaga en Kennarasamband Íslands er langstærst þeirra. Er þetta gert með hliðsjón af því að æskilegt þykir að fækka úthlutunarnefndum atvinnuleysisbóta. Í stað fulltrúa frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaga koma fulltrúar frá fjmrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Samkvæmt 1. gr. frv. skal 2. mgr. 24. gr. laganna falla brott. Hún felur í sér heimild til að meðreikna vinnu sem unnin er samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna við ákvörðun bóta til umsækjenda sem nær ekki 425 dagvinnustundalágmarkinu til að geta átt bótarétt. Ákvæðið er því orðið úrelt eftir að sú breyting varð að lög um atvinnuleysistryggingar taka til opinberra starfsmanna.
    Annað efnisatriði frv. eru óhjákvæmilegar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar með tilliti til þess að Tryggingastofnun ríkisins annast ekki lengur þjónustu við Atvinnuleysistryggingasjóð, sbr. 2. og 8.--12. gr. frv. Er gert ráð fyrir því að vinnumálaskrifstofa félmrn. yfirtaki þau verkefni sem Tryggingastofnun annaðist fyrir sjóðinn, en að öðru leyti er ekki um efnislegar breytingar að ræða á ákvæðunum.
    Í þriðja lagi felur frv. í sér breytingar, sem taldar eru nauðsynlegar, vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með 30. gr. laga nr. 116/1993, um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar Íslands að samningi um Evrópskt efnahagssvæði, voru gerðar tvær breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Annars vegar var gerð breyting á 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laganna til að tryggja þeim sem eru í atvinnuleit í EES-landi rétt til að fá greiddar íslenskar atvinnuleysisbætur í því landi og hins vegar bættist við ný grein, 41. gr. a, sem heimilar Atvinnuleysistryggingasjóði að greiða, fyrir hönd þar til bærrar stofnunar í EES-landi, ríkisborgara í EES-ríki, sem hingað kemur í atvinnuleit, atvinnuleysisbætur. Við nánari skoðun þykir nauðsynlegt að þrjú ákvæði til viðbótar verði lögfest vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum.
    Í fyrsta lagi er um að ræða ákvæði um að bótaþegi, sem er í atvinnuleit í EES-landi, skuli sæta reglum þess lands um eftirlit og skráningu hjá vinnumiðlun, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Í 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er það skilyrði bótaréttar að umsækjandi láti skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun. Reglur Evrópusambandsins sem gilda á EES-svæðinu gerir ráð fyrir að fari einstaklingur í atvinnuleit innan svæðisins beri landinu þar sem hann á rétt á atvinnuleysisbótum að greiða honum áfram bætur þann tíma sem honum er atvinnuleitin heimil. Það er að hámarki í þrjá mánuði og hann eigi þann tíma að sæta reglum þess lands þar sem hann er í atvinnuleit um skráningu og eftirlit. Það er því auðsætt að skilyrði um vikulega skráningu getur ekki átt við þegar íslenskir bótaþegar fara í atvinnuleit til annars EES-lands og er því lögð til breyting á þessu ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar í samræmi við reglur Evrópusambandsins.
    Í öðru lagi er um að ræða heimild til að reikna starfstímabil launamanns í öðru EES-landi með við ákvörðun atvinnuleysisbóta til hans hér á landi, sbr. 6. gr. frv. Samkvæmt 66. gr. reglugerðar Evrópusambandsins skal aðildarríki við ákvörðun atvinnuleysisbóta taka tillit til starfs- og tryggingatímabila sem launþegi hefur lokið samkvæmt löggjöf annarra aðildarríkja eins og þeim hefði verið lokið samkvæmt löggjöf

fyrstnefnda ríkisins. Í lögum um atvinnuleysistryggingar er ekki að finna heimild til þessa og því er nauðsynlegt að lögfesta heimild til að meðreikna starfstímabil í öðru EES-landi. Það leiðir af 3. mgr. 67. gr. reglugerðar nr. 1408/71 að það er skilyrði fyrir því að meðreikna starfstímabil erlendis frá að hinn atvinnulausi hafi síðast átt að baki starfstímabil í samræmi við ákvæði þeirrar löggjafar sem bótakrafan byggist á. Í samræmi við þetta ákvæði er unnt að setja það skilyrði fyrir að meðreikna starfstímabil í öðru EES-landi að viðkomandi hafi síðast átt að baki starfstímabil hér á landi. Er gert ráð fyrir að nánari reglur um slík skilyrði verði sett í reglugerð.
    Rétt er að árétta að heimildin á aðeins við um launþega. Hinn atvinnulausi verður að hafa starfað sem launþegi, bæði hér og í viðkomandi EES-landi. Hann verður að hafa verið tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysisbætur í öðru EES-landi til þess að njóta góðs af ákvæðinu og hann verður að leggja fram tilskilin vottorð útgefin af viðkomandi yfirvöldum í því landi sem staðfesta áunnin starfs- og tryggingatímabil þar. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji með reglugerð og í samræmi við reglur Evrópusambandsins nánari reglur um hvaða skilyrðum þarf að fullnægja að því leyti til að njóta góðs af heimildinni.
    Í þriðja lagi þykir nauðsynlegt að lögfesta sérstaka heimild til að birta reglur Evrópusambandsins um atvinnuleysisbætur, sbr. 13. gr. frv. Þær er að finna í 6. kafla reglugerðar, með síðari breytingum, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, sbr. 1. tölul. VI. viðauka EES-samningsins og í 6. kafla reglugerðar. nr. 574/72, með síðari breytingum, um framkvæmd reglugerðar nr. 1408/71. Samkvæmt 66. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar, enda eigi ákvæði þeirra stoð í þeim lögum. Af fyrirvaranum um að ákvæðin skuli eiga stoð í almannatryggingalögum leiðir að heimildin nær ekki til reglna Evrópusambandsins um atvinnuleysisbætur. Ákvæðum 7. gr. EES-samningsins um að gerð sem samsvarar reglugerð EB skuli sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila hefur því ekki verið fullnægt hvað reglur um atvinnuleysisbætur áhrærir. Ákvæði 13. gr. er ætlað að bæta úr því og er í ákvæðinu notað hliðstætt orðalag og í áðurgreindri 66. gr. almannatryggingalaga.
    Virðulegi forseti. Ég vil geta þess hér þar sem þetta hljómar í framsögu minni eins og þung og mikil breyting að hún er það ekki. Í raun þóttu þær breytingar sem átti eftir að gera samkvæmt EES-samningnum svo veigalitlar að þær voru viljandi látnar bíða þar til þyrfti að gera breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Að öðru leyti er verið að tryggja að hægt sé að setja heimild til reglugerðarsetningar í þessi lög þar sem hjá heilbrrn. var sérstök reglugerðarheimild varðandi Tryggingastofnun, en þar var þessi málaflokkur vistaður. Hér er því fyrst og fremst verið að flytja til ákvæði sem þegar hafa verið fyrir hendi.
    Fjórða efnisatriði frv. er tilkomið vegna 3. liðar yfirlýsingar ríkissjóðs í tengslum við kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum um eingreiðslu til atvinnulausra, sbr. bráðabirgðaákvæði II í frv. Ákvæðið er efnislega samhljóða fyrra bráðabirgðaákvæði við lög um atvinnuleysistryggingar um sama efni. Það fyrsta sem ég kynnti í þessu frv. er samkvæmt samningum við opinbera starfsmenn á sl. ári og fjórða efnisatriðið er komið til vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í þessum kjarasamningum.
    Fimmta efnisatriðið felur í sér brottfall ákvæða sem á rót sína að rekja til þess tíma sem það var ekki skylt að greiða af öllum launum til atvinnuleysistryggingasjóðs. Ákvæðið á ekki við eftir að öll störf eru orðin tryggingaskyld. Hins vegar hefur það vakið þann misskilning að menn geta geymt bótarétt sinn með því að stunda svokallaða svarta vinnu. Rétt þykir hins vegar að viðhalda rétti þeirra sem taka að stunda nám og þeirra sem verða að hverfa frá vinnu af heimilisástæðum til að geyma bótarétt sinn og er byggt á því að réttur þeirra sé óbirtur eins og í gildandi lögum.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að gefa yfirlit yfir þetta frv. Ljóst er að lög um atvinnuleysistryggingar þarfnast heildarendurskoðunar. Ekki hefur gefist ráðrúm til þess og því felur frv. þetta eingöngu í sér brýnar og óhjákvæmilegar breytingar á lögunum. Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.