Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:31:13 (4932)


[11:31]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Við lifum á erfiðum tímum og þeir verða sífellt erfiðari. Það er eiginlega alveg ótrúlegt þegar ekki eru nema kannski tveir dagar til þingloka að þá skulum við vera að eyða tímanum í að ræða frv. um grunnskóla. Lagasetning um íslenskan grunnskóla er alvarlegt mál en þetta alvarlega mál er orðið að farsa. Það er gjörsamlega þýðingarlaust og reyndar óviturlegt að afgreiða þetta frv. hér og nú í þessu formi. Þessi fæðing er fyrir tímann, þetta afkvæmi er ófullburða og það þarfnast lengri meðgöngu og hefði gott af henni. Kannski maður byrji á getnaðinum.
    Hæstv. menntmrh. langaði að setja á lög um grunnskóla. Gildandi lög um grunnskóla voru sett fyrir forgöngu annars menntmrh. og þar af leiðandi gat náttúrlega hæstv. menntmrh. í virðuleik sínum ekki unað við það. Hann hefur reyndar komið í veg fyrir að þau kæmu til framkvæmda nema að hluta til. Hann fór að undirbúa lagasetningu, frumvarpssmíð. Hann ákvað að hafa þetta eingetið íhaldsafkvæmi. Að vísu

slapp einn krati inn í þetta 18 manna gengi hans. Einn í 18 manna genginu var dreifbýlismaður, þ.e. utan Reykjavíkursvæðisins. Þetta voru einkennilega aulalega vinnubrögð af jafnþjálfuðum og mikilhæfum stjórnmálamanni og hæstv. menntmrh. er.
    Það gefur auga leið að svona vinnubrögð eru ekki til þess að efla pólitíska samstöðu eða líkleg til þess að greiða fyrir málinu á þingi. Sennilega hefur það verið draumur hæstv. menntmrh. að þetta frv. yrði ekki með neinu ættarmóti frá Framsfl. eða Alþb. eða Kvennalistanum enda gætti hann þess vandlega að hafa ekki svoleiðis fólk í undirbúningi málsins. Það er ótrúlegt að jafnreyndur og mikilhæfur stjórnmálamaður og hæstv. ráðherra er skuli láta þetta henda sig.
    Nú er ég ekki að mæla á móti því að sjálfstæðismönnum, jafnvel þó að þeir séu 17 saman og einn krati, geti dottið margt gott í hug. Fjarri því. Það er ýmislegt gott í þessu frv. Það er margt sem getur orðið til þjóðþrifa og heppilegt að búa við í framtíðinni. Sveitarfélögin vildu taka við grunnskólanum og hafa lýst yfir vilja sínum til þess. Gott og vel, lofum þeim að taka við grunnskólanum ef þau treysta sér til. Ég hafði reyndar lengi efasemdir um að það væri heppilegt að fá sveitarfélögunum grunnskólann í hendur en úr því að þau treysta sér til þá ætla ég ekki að bregða fæti fyrir það. Það er gert ráð fyrir einsetningu skóla. Það er gert ráð fyrir samfelldum skóladegi og það er prýðilegt. Í þessu frv. er gert ráð fyrir foreldraráðum og ég tel að það sé til bóta. Ég tel að það sé einn meginkostur á frv. að foreldrar fá aukin áhrif í skólastarfinu. Ég er þeirrar skoðunar að samræmd próf sem eru sett í frv. séu líka mjög til bóta. Ég er algjörlega ósammála þeim sem hafa verið að gagnrýna þetta frv., m.a. flokkssystkinum mínum, sem leggjast gegn samræmdum prófum. Samræmd próf koma til með að vera svipa á sveitarfélög og skóla sem ekki hafa metnað til þess að standa sig. Börnin eiga heimtingu á góðri kennslu og að þau séu ekki látin dragast aftur úr. Það er ómögulegt að komast að því hvort börnin dragast aftur úr nema með samræmdum prófum. Þá er hugsanlegt að kippa því í lag sem aflaga hefur farið og þar með bæta framtíðarmöguleika barnanna. Slæm útkoma á samræmdu prófi sýnir að eitthvað er að. Markmið grunnskólalaga á náttúrlega að vera það að tryggja framtíð barnanna, gefa þeim tækifæri til manndóms og þroska.
    Það hefur mikill tími farið í það að ræða kjör kennara og ég er ekki að gera lítið úr þeim þætti málsins. Ég ætla ekki að fjölyrða um þann þátt í þessari umræðu. Ég hef hins vegar hugsað mér að óska eftir utandagskrárumræðu um kennaraverkfallið sem tengist þessu grunnskólafrumvarpsmáli síðar í dag eða í síðasta lagi á morgun og beina máli mínu til hæstv. forsrh.
    Það hefur líka farið mikill tími í það að ræða fjárhagshlið málsins og samstarfið við sveitarfélögin. Þetta er mikilvægt atriði líka. En það eru þrátt fyrir allt börnin sem eru aðalatriðið. Það eru nemendurnir sem eru aðalatriðið, ekki kennararnir eða sveitarstjórnarmennirnir þó að þeir skipti líka máli.
    Ég skil það ósköp vel að hæstv. menntmrh. langi til að eitthvað liggi eftir sig í menntamálum eftir fjögurra ára setu á ráðherrastóli. Fleira en hryðjuverk eins og hann hefur unnið á Lánasjóði ísl. námsmanna. Nú veit ég ekki hvort klukkan glymur hæstv. menntmrh. í kosningunum í vor og ætla engu að spá um það. Ég sé hins vegar alvarlega hættu á því samkvæmt skoðanakönnunum að þótt ótrúlegt megi virðast þá kunni svo að fara að núv. ríkisstjórn haldi meira hluta sínum. Það kann að vera að þjóðin fyrirgefi hæstv. ríkisstjórn það sem hún hefur verið að gera undanfarin fjögur ár og þá kann vel að vera að hæstv. menntmrh. sitji áfram á stóli menntmrh. eftir 8. apríl og þá hefur hann líka nógan tíma til þess að vinna að því hugsjónaverki sínu að fá sett lög um grunnskóla.
    Ég verð að játa það að þetta er kannski svartsýn framtíðarsýn. Þjóðin á að vita hvernig hæstv. ríkisstjórn er og vera búin að fá reynslu af henni en samkvæmt skoðanakönnunum virðist blasa við sú hætta að þjóðin hafi ekki langtímaminni eða ályktunargáfu til þess að sjá hættuna af því að hafa núv. ríkisstjórn áfram.
    Ég held að í þessu frv. sé þættinum sem snýr að börnunum að mörgu leyti gerð sæmileg skil. Þó sakna ég þess að mér finnst að það vanti ákvæði um hvað gera skuli ef sveitarfélag sinnir ekki skyldum sínum. Hæstv. ráðherra fékk í hendur frv. frá átjánmenningum sínum og hann fór að reyna að fá það lagfært en svo lét hann deigan síga og hætti að vinna að málinu, þ.e. öðrum þáttum málsins. Hann vék sér hjá því að ganga frá nauðsynlegum aðgerðum til þess að þetta frv. gæti orðið að lögum. Það var heigulsháttur hjá hæstv. menntmrh. að eyða heilum vetri án þess að lyfta fingri til þess að ganga frá kennaramálinu. Ég frétti af einhverju leyniplaggi sem liggur í menntmrn., frv. um málefni kennaranna. Það hefur ekki verið sýnt. Hvers vegna ekki? Ég spyr hæstv. menntmrh.: Af hverju lét hann það ekki á þrykk út ganga þannig að hægt væri að hafa það til hliðsjónar við afgreiðslu málsins eða afgreiða það jafnframt?
    Það er líka heigulsháttur hjá hæstv. ráðherra að vera ekki búinn að ganga frá samskiptamálum sínum við sveitarfélögin til þess að yfirfærslan mætti takast. Svo er verið að klúðra hér inn í þetta gildistökuákvæðið að slá því á frest. Þar með er náttúrlega búið að viðurkenna að það liggi ekkert á að afgreiða málið. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þegar sveitarfélögin taka við grunnskólanum, þá fái þau ekki uppi borinn þann viðbótarkostnað sem af því hlýst. Menntmrn. hefur verið að flagga tölum um þann kostnað á landsvísu. Þær tölur eru áreiðanlega mjög óraunhæfar og vantar mikið inn í það dæmi. Það hefur komið í ljós að bara í Reykjavík einni er meiri kostnaður en gert er ráð fyrir á landsvísu. Það er líka skammsýni að ganga ekki frá fræðsluskrifstofuþættinum í málinu.
    En ég vek athygli á 57. gr. frv. sem er gildistökugreinin en í niðurlagi greinarinnar segir, með leyfi forseta:

    ,,Menntmrh. ákveður í reglugerð hvaða ákvæði laga þessara koma til framkvæmda fyrir 1. ágúst 1995, þar með talið hvernig skuli fram til þess tíma haga ráðningu kennara og annarra starfsmanna grunnskóla sem starfa sem ríkisstarfsmenn.``
    Þetta finnst mér undarlegt ákvæði í annars botnlausu frv. Ráðherra á að fá reglugerðarvald samkvæmt lögum sem ekki eru búin að taka gildi. Ég fæ ekki komið því heim og saman hvernig þetta megi verða og ég held að þetta sé vanhugsað og ef ráðherra er harður á því að reyna að knýja málið fram með meirihlutavaldi á Alþingi þá sé óhjákvæmilegt að hann geri tillögu um að fella þessa grein a.m.k. niður.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja meira um þetta mál í bili.