Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 14:52:30 (4963)


[14:52]
     Frsm. 3. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ágætt að fá sýnishorn af rökrænni umræðu í þessari stofnun og vera minntur á það hvað er auðvelt að halda uppi pottþéttri, rökréttri umræðu. Þetta var allt saman útúrsnúningur hjá hv. þm. Það sem ég sagði var það að . . .  ( StB: Lestu ræðuna þá aftur.) Það er nú erfitt, það er eftir að prenta hana, það er þó nokkurt verk að skrifa þessa ræðu út, hv. þm. En það sem ég sagði var ósköp einfaldlega að það væri kannski skynsamlegt, ef hv. þm. vill hlusta á mig, það hefði kannski verið skynsamlegt að fara fyrst í það að semja við stærstu sveitarfélögin um þessi verk og láta þau þróast þannig hægt og bítandi. Með öðrum orðum, ég er að ráðleggja þingmanninum að fara í þessa hluti út frá efnisaðstæðum á hverjum stað og hverjum tíma og leyfa hlutunum að taka tíma. Það ætti hann að vita og þekkja sem reyndur og traustur íhaldsmaður eins og ég.