Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 14:53:33 (4964)


[14:53]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. staðfesti það sem ég sagði. Hann er reiðubúinn til þess að standa fyrir því í þinginu að það verði gerð tilraun. Tilraunin felst í því að leyfa flutning grunnskólans til sumra sveitarfélaga og ég get ekki séð annað en það liggi þar með fyrir, þetta er hugmynd, þetta er tillaga sem lögð er fram núna í þessari umræðu. Ég held að það muni verða einkennilegt upplitið á alþýðubandalagsmönnunum sem hafa unnið mjög drengilega og af miklum heilindum á vettvangi sveitarstjórnanna við það að undirbúa þessa tilfærslu sem er mjög vandasöm og ég hef ekki heyrt annað hjá þingmönnum í Alþingi en það sé ríkur vilji til þess að flutningur grunnskólans eigi sér stað og til þess verði vandað. Það verði vandað til þess með þeim hætti að sveitarfélögunum verði tryggðar tekjur og það verði samið við grunnskólakennara þannig að þeir geti unnið sín viðkvæmu og vandasömu störf við eðlilegar aðstæður.