Samningur um verndun mannréttinda og mannfrelsis

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 16:29:11 (4979)


[16:29]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fullgildingu á samningsviðauka nr. 11 með samningnum um verndun mannréttinda og mannfrelsis varðandi eftirlitskerfi samningsins.
    Þessi þáltill. er borin fram til að afla heimildar fyrir ríkisstjórn til að fullgilda fyrir Íslands hönd samningsviðauka nr. 11 frá 11. maí 1994 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis en sá samningur var gerður 4. nóv. 1950. Ásamt fyrri viðaukum er samningur þessi á Íslandi nefndur mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, en samningsviðauki nr. 11 varðar endurskipulag á eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans.

    Að því er íslenska löggjöf varðar var mannréttindasáttmáli Evrópu samþykktur sem lög á Íslandi með lögum nr. 62 frá 19. maí 1994. Áður en samningsviðauki þessi kemur til framkvæmda þarf því að breyta þeim lögum þannig að samningsviðauki nr. 11 verði hluti af þeim. Hins vegar var ekki talin ástæða að svo stöddu til að gera breytingar á lögunum um mannréttindasáttmála Evrópu meðan ekki liggur ljóst fyrir hvenær samningsviðaukinn öðlast gildi. En eins og að framan er rakið má búast við að það verði vart fyrr en eftir 2--3 ár. Nauðsynlegt er hins vegar að fullgilda samningsviðauka þennan af Íslands hálfu sem allra fyrst til þess að láta í ljós vilja Íslands til þess að breyting verði sem fyrst á dómsmálastofnun mannréttindasáttmálans. ( HG: Virðulegi forseti. Það heyrist ekki í ræðumanni.)
    Virðulegi forseti. Samningsviðaukinn fylgir hjálagður á þskj. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. utanrmn.