Útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiða

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 16:54:09 (4990)


[16:54]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Út af fyrir sig fagna ég því að þessi tillaga hafi hlotið afgreiðslu frá hv. menntmn. og verði samþykkt. Hitt er annað mál að það er búið að samþykkja svona tillögu hér áður og vitnað til þess í nál., þ.e. ályktun Alþingis frá 11. maí 1988, sem hv. frummælandi var að kynna hér áðan.
    Það er ekki vansalaust að ekki skuli vera búið að koma dreifikerfi sjónvarpsins á þann rekspöl að það nái til allra heimila í landinu, en a.m.k. í mínu kjördæmi eru nokkur heimili sem ekki fá enn þá notið sjónvarps. Ég tel að það hefði mátt knýja fastar á heldur en gert er í þessari tillögu, þ.e. það vantar ekki áætlanir, það vantar ekki kannanir, það vantar eitthvað dálítið af peningum og viljann til að gera hlutina. Og ég treysti því að þó að þessi tillaga verði ekki samþykkt að þá drífi menn nú í því að ganga frá þessu máli. Það er ekki vansalaust að hafa þetta ástand eins og það er.