Rannsóknarráð Íslands

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 16:59:52 (4993)


[16:59]
     Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 763 um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 61 frá 1994, um Rannsóknarráð Íslands, frá menntmn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem kveður á um breytingu á skipan fulltrúa í Rannsóknarráð Íslands. Annars vegar er kveðið á um að fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands tilnefni í ráðið auk þeirra sem lögin gera ráð fyrir. Hins vegar er kveðið á um að menntamálaráðherra skuli gæta þess við skipan í ráðið að jafnvægi sé á milli vísinda og tækni og að sjálfstæði ráðsins sé tryggt svo að það fái sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.
    Við umfjöllun um málið studdist nefndin við umsagnir frá Skógrækt ríkisins, Seðlabanka Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Veðurstofu Íslands, Iðntæknistofnun, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Samtökum iðnaðarins, Rannsóknarráði Íslands, Hafrannsóknastofnun, Þjóðminjasafni Íslands, læknaráði Landspítalans, læknaráði Borgarspítalans, Háskóla Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Háskólanum á Akureyri.
    Þær breytingar, sem kveðið er á um í frumvarpinu, eru gerðar til að tryggja áhrif atvinnulífsins enn frekar. Menntamálanefnd vill leggja áherslu á að samþykkt frumvarpsins felur ekki að neinu leyti í sér gagnrýni á störf þess Rannsóknarráðs sem nú situr. Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:
    Í fyrsta lagi við 2. gr., þ.e. gildistökuákvæði sem orðist þá svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Í öðru lagi bætist við ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: 1. gr. laga þessara kemur að fullu til

framkvæmda þegar starfstími þess Rannsóknarráðs, sem nú situr, rennur út.`` Menntamálaráðherra skipar þegar tvo fulltrúa í Rannsóknarráð Íslands samkvæmt tilnefningum Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands og jafnmarga til vara og skal sú skipan gilda uns 1. gr. laga þessara kemur að fullu til framkvæmda. Nánar skal kveðið á um fyrirkomulag tilnefningar framangreindra samtaka í ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur.