Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 17:20:47 (4996)


[17:20]
     Frsm. félmn. (Gísli S. Einarsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985.
    Nefndin hefur fjallað um þetta viðamikla mál á nokkrum fundum og fengið til sín fjölda viðmælenda. Frá félagsmálaráðuneyti þau Berglindi Ásgeirsdóttur ráðuneytisstjóra, Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Önnu Guðrúnu Björnsdóttur deildarstjóra. Enn fremur komu Ólafur Proppé og Björn Hermannsson frá Landsbjörg, Júlíus Sólnes, Árni Jónsson og Guðrún Ólafsdóttir frá neyðarnefnd Verkfræðingafélags Íslands, Sólveig Smith, Ester Unnsteinsdóttir og Ingimundur Magnússon frá Björgunarhundasveit Íslands, Eiríkur Greipsson og Kristján Jóhannesson frá Flateyri og Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri. Þá komu umsagnir frá hreppsnefnd Flateyrarhrepps, Verkfræðingafélagi Íslands og Björgunarhundasveit Íslands, svo og álit starfshóps sem skipaður var til að yfirfara frumvarp til laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Einnig var stuðst við umsagnir er bárust á 116. löggjafarþingi um frumvarp til laga um sérstaka fjáröflun til varna gegn ofanflóðum og um breytingu á kostnaðarhlutfalli sveitarfélaga, 485. mál á þskj. 833, frá Flateyrarhreppi, Almannavörnum ríkisins, Vestmannaeyjabæ, Viðlagatryggingu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bíldudalshreppi, Ísafjarðarkaupstað, Veðurstofu Íslands, Seyðisfjarðarkaupstað, Neskaupstað, Tálknafjarðarhreppi og Siglufjarðarkaupstað.
    Lagðar eru til eftirtaldar breytingar á frumvarpinu:
    1. Lagðar eru til breytingar á 1. gr. þar sem leitast er við að efla tengsl athugunarmanna við Veðurstofu Íslands og tryggja að þeir fái nauðsynlega starfsþjálfun. Ljóst er að athugunarmennirnir koma til með að hafa mikið samband við Veðurstofuna þar sem þeir munu starfa samkvæmt faglegum fyrirmælum hennar. Með hliðsjón af því er lagt til að lögreglustjóri skuli hafa samráð við Veðurstofu við ráðningu athugunarmanns. Einnig er lagt til að lögreglustjóri skuli hafa samráð við sveitarfélög í umdæminu. Ekki þóttu rök til að gera ákveðnar menntunarkröfur til athugunarmanna, hins vegar er nauðsynlegt að þeir fái starfsþjálfun sem eðlilegast er að Veðurstofa annist. Enn fremur er lagt til að lokamálsliður 1. gr. falli brott enda ekki þörf á honum þar sem það kemur skýrt fram í 2. gr. frumvarpsins að umræddan kostnað skuli greiða að fullu.
    2. Lagt er til að tvær nýjar greinar komi í frumvarpið.
    Með breytingum á 7. gr. laganna verði skýrt kveðið á um það að sá valkostur sé fyrir hendi að húseignir verði keyptar í staðinn fyrir að reisa varnarvirki fyrir þær. Heppilegast þykir að málsmeðferð verði með sama hætti og nú er varðandi varnarvirki, sbr. 7. og 8. gr. laganna, þannig að það sé sveitarstjórnar að hafa frumkvæði og gera tillögur um hvora leiðina skuli fara en Almannavarnir ríkisins og félagsmálaráðherra taki endanlega ákvörðun um það. Við þá ákvörðunartöku þarf að huga bæði að öryggis- og kostnaðarsjónarmiðum. Ef kaup á húseignum eiga að geta komið í staðinn fyrir byggingu varnarvirkja þarf að vera fyrir hendi eignarnámsheimild sem unnt er að beita ef ekki næst samkomulag um kaup eða kaupverð. Um framkvæmd eignarnáms færi samkvæmt lögum um það efni, nr. 11/1973.
    Sú breyting sem lögð er til að gerð verði á 7. gr. laganna felur í sér að sá möguleiki sem er til að kaupa húseignir, samkvæmt 11. gr. gildandi laga, verði dreginn fram með ótvíræðum hætti. Jafnframt er lögð áhersla á að meta beri alla kosti til að tryggja öryggi íbúanna. Ef niðurstaðan er sú að varnarvirki eða aðrar varnaraðgerðir séu ekki hagkvæmasti kostur heldur sé hagkvæmara að kaupa húseignir er það sveitarfélaga að gera tillögu þar að lútandi til stjórnar ofanflóðasjóðs. Ofanflóðasjóður yrði þá að taka afstöðu til tillagna um hagkvæmni kaupa á húseignum fremur en annarra aðgerða sem og þess verðs sem sveitarfélagið hygðist semja um við húseigendur.
    Áhersla er lögð á að sveitarfélagið nái samningum við húseigendur og hljóta þar að vera lagðir til grundvallar heildarhagsmunir sveitarfélagsins. Félagsmálanefnd lítur svo á að sé slíkt lagt til grundvallar sé eðlilegt að sveitarfélagið geri samninga um mismunandi greiðslur eftir því hvort verið sé að greiða fjárhæð vegna þess að viðkomandi hyggist byggja að nýju innan sveitarfélagsins eða hvort viðkomandi ætli sér að kaupa annað húsnæði. Nefndin álítur því sanngjarnt að sveitarfélög geti lagt til grundvallar sem viðmiðun að sé eiganda húseignar, sem keypt er vegna varnaraðgerða, úthlutað lóð undir nýtt hús í sama sveitarfélagi, skal greiða fyrir eignina vátryggingarfjárhæð viðlagatryggingar (brunabótamat) og skal greiða fjárhæðina eftir því sem byggingarframkvæmdum miðar. Að öðrum kosti skal greiða samkvæmt fasteignamati. Enn fremur er eðlilegt að litið verði við slíkt uppgjör til 3. gr. laga um brunatryggingar, nr. 48/1994, sbr. 2. gr. laga nr. 150/1994.
    Einnig er lögð til breyting á 9. gr. laganna þar sem lögð er áhersla á skyldur og ábyrgð sveitarfélaga í viðhaldi varnarvirkja.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 2. gr. Í fyrsta lagi á samkvæmt frumvarpinu að greiða allan kostnað vegna staðbundinna athugana úr ofanflóðasjóði. Það á bæði við um launakostnað og annan rekstrarkostnað enda sé um eðlilegan og nauðsynlegan kostnað að ræða. Lagt er til að ráðherra skuli setja nánari reglur um greiðslur á þessum kostnaði. Er gert ráð fyrir að í þessum reglum verði kveðið á um hvernig standa skuli að fjárhagslegri umsýslu í kringum athugunarmennina og störf þeirra. Þannig verði settar samræmdar reglur um greiðslur til þeirra og hvernig verði staðið að ráðningu þeirra. Einnig þarf að setja samræmdar reglur um greiðslur á öðrum rekstrarkostnaði, t.d. um greiðslur fyrir afnot af tækjum og búnaði. Í þessu sambandi er á það bent að skv. 2. mgr. 11. gr. laganna, eins og hún hljóðar samkvæmt frumvarpinu, ákveður félagsmálaráðherra úthlutun úr ofanflóðasjóði að fengnum tillögum Almannavarna ríkisins. Af þessu ákvæði leiðir að lögreglustjórar verða að leggja kostnaðaráætlanir fyrir Almannavarnir og fá samþykki þess og félagsmálaráðherra áður en þeir geta gengið frá samningum um athuganir sem hafa kostnað í för með sér.
    Í öðru lagi er í 3. tölul. fyrri efnismgr. 2. gr. kveðið á um kaup á tækjum og búnaði til rannsókna og eftirlits. Samkvæmt frumvarpinu er greint á milli rannsóknartækja, sem nýtast sem eftirlitstæki til að auðvelda snjóflóðaspár og mat á skammtímahættu, sem greiða skal að fullu, og tækja og búnaðar, sem sérstaklega er aflað til rannsókna á snjóalögum með tilliti til snjóflóðahættu sem greiða má allt að 90%. Við nánari skoðun þykja ekki rök til þess að greina með þessum hætti þarna á milli heldur sé eðlilegra að heimilt verði að greiða úr ofanflóðasjóði allt að 100% af kostnaði við kaup á hvers konar rannsóknar- og eftirlitstækjum og búnaði sem aflað er sérstaklega til rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu, en ekki eingöngu snjóflóðahættu eins og frumvarpið í núverandi mynd og lögin gera ráð fyrir. Það er Almannavarna ríkisins í samráði við ofanflóðanefnd, sbr. 4. gr. laganna, að gera tillögur til félagsmálaráðherra um hvers konar tæki og búnað greitt verði fyrir og að hve miklu leyti. Með búnaði er ekki eingöngu átt við búnað í tengslum við rannsóknartæki heldur einnig nauðsynlegan útbúnað fyrir athugunarmennina, svo sem öryggis- og fjarskiptatæki.
    Í þriðja lagi verði breytingar á 4. tölul. sem gera það unnt að greiða fyrir að húseignir séu fluttar af hættusvæði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali, þskj. 793. Þar eru breytingartillögurnar. Ég sé ekki ástæðu, frú forseti, til þess að fara sérstaklega yfir þær. Þær eru hér til staðar, en undir þetta nefndarálit og tillögur rita eftirtaldir þingmenn: Gísli Einarsson, Guðrún Halldórsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Guðjón Guðmundsson, Kristinn H. Gunnarsson, með fyrirvara, Jón Helgason, Sigbjörn Gunnarsson, Eggert Haukdal og Jón Kristjánsson, allt hv. þm. í félmn. Ég legg til að málið hafi síðan eðlilegan framgang.