Áhafnir íslenskra kaupskipa

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 21:33:59 (5014)


[21:33]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fresta afgreiðslu þessa máls. Það er líka mikið í húfi. Ef þetta mál nær eigi fram að ganga þá eigum við það á hættu að íslenskum skipverjum um borð í erlendum skipum verði hent frá borði og við eigum það á hættu að íslensk skip missi réttindi sín í erlendum höfnum. Ég skýrði frá því í dag að samkomulag var gert við fyrrv. formann Sjómannafélags Reykjavíkur, sem gat því miður ekki verið hér í kvöld, en tók þátt í afgreiðslu málsins við 2. umr., auk þess sem forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins var á þeim fundi. Áður hafði verið rætt við alla helstu hagsmunaaðila í þessu máli.
    Það sem hv. þm. sagði um mönnun eða þau ákvæði frv. sem lúta að mönnun skipa, þá er hvarvetna um lágmarksmönnun að ræða en ekki hámarks. Þannig að það eru fullar heimildir samkvæmt frv. að hafa fleiri um borð í skipi heldur en lágmarksmönnun segir til um ef samningar lúta að því. Og ákvæði sem við settum inn í frv. í brtt. sem afgreidd var við 2. umr. taka af allan vafa um það að kjarasamningar halda gildi sínu umfram þessi lög og önnur samningsbundin réttindi sem sjómenn hafa aflað sér.