Eftirlit með skipum

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 21:51:26 (5019)


[21:51]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það litla frv. lætur ekki mikið yfir sér og hv. formaður samgn. hafði ekki mörg orð um það. Það er flutt af samgn. en ég vildi samt að það kæmi hér fram að ég var ekki á þeim fundi þar sem ákveðið var að leggja þetta fram af hálfu nefndarinnar og hafði því ekki tækifæri til þess að ræða það eða spyrja neitt frekar út í það.
    Samgn. hafa borist umsagnir um þetta sem að vísu eru flestar jákvæðar en þó ein mjög neikvæð frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Ég verð að segja að ég hef vissar efasemdir um það að við eigum að rýmka þetta ákvæði og tek þar undir athugasemdir landssambandsins um að það sé staðreynd að íslenski fiskiskipaflotinn sé miklu stærri en æskilegt væri og þess vegna hafa þeir efasemdir um að það sé rétt að

rýmka þessi ákvæði meira. Í dag er þetta ákvæði 15 ár um skip sem leyft er að flytja inn. Þrátt fyrir að sjómannasamtökin og vélstjórafélögin eru þessu samþykkt hef ég vissar efasemdir um þetta fyrst og fremst vegna þess að við skulum leyfa hærri hámarksaldur á skipum til innflutnings á sama tíma og við erum með þróunarsjóð sem á að úrelda skip. Hann er að úrelda skip sem eru margfalt yngri en þau skip sem hér á að fara að leyfa að flytja inn.
    Á þessu stigi mun ég ekki leggjast gegn því að frv. fari í gegn en ég tel að það hefði þurft að athuga það betur en eins og oft vill verða hér á síðustu dögum þingsins að þá gefst ekki nægur tími til þess. Ég er ekki tilbúin til að taka afstöðu til þess hvort þetta sé rétt á þessu stigi en hef miklar efasemdir um það.