Hitaveita Suðurnesja

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 21:54:23 (5020)

[21:54]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Þetta frv. er flutt vegna þess að Keflavík, Njarðvík og Hafnahreppur, eigendur Hitaveitu Suðurnesja, hafa verið sameinuð í eitt sveitarfélag og því er nauðsynlegt að gera breytingu á lögum um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 100/1974.
    Í frv. er lagt til að upptalning laganna á eignaraðilum og eignarhlutföllum þeirra taki mið af hinu nýja sameinaða sveitarfélagi. Jafnframt er gert ráð fyrir því að hið sameinaða sveitarfélag eigi þrjá fulltrúa í stjórn Hitaveitu Suðurnesja og þrjá til vara.
    Í 11. gr. laganna er kveðið svo á um að stjórn Hitaveitu Suðurnesja geti ekki skuldbundið eignaraðila nema að fengnu samþykki a.m.k. fimm þeirra. Þar sem eignaraðilum hefur fækkað er því lagt til að nægjanlegt sé að samþykki fjögurra sé leitað.
    Þar sem heimild 13. gr. laganna um stækkun raforkuvers í Svartsengi hefur verið fullnýtt þykir rétt að fella greinina niður í heild sinni.
    Ég vil aðeins taka fram, virðulegi forseti, að frv. þetta til breytingar á lögum um Hitaveitu Suðurnesja er flutt sem samkomulagsmál fyrir eignaraðila.
    Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.