Leigubifreiðar

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:06:31 (5023)


[22:06]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þau frv. sem er verið að ræða hafa nú valdið allmiklum óróa úti í þjóðfélaginu. Einmitt þess vegna voru þau rædd mjög vel í hv. samgn. og einkum það frv. sem hér er fyrst og fremst verið að leggja fram, þ.e. frv. um leigubifreiðar og síðan eru önnur frv. með til þess að samræma raunverulega aldursmarkið á öðrum bifreiðastjórun, þ.e. þeim sem eru með fólksflutninga og vöruflutninga. Ég ætla því frekar að einbeita mér að því að ræða hér aðeins um frv. til laga um leigubifreiðar. Það frv. var lagt fram í fyrra og varð þá ekki útrætt vegna þess að okkur fannst vanta samræmingu einmitt við bifreiðastjóra á fólksflutningabifreiðum og vörubifreiðum. Það var einnig ágreiningur um hvert aldursmarkið skyldi vera, hvort það skyldi hækka eða hvort samræming yrði á því í öllum þessum atriðum.
    Einnig er verið að gera nauðsynlegar breytingar til samræmis við niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu einmitt vegna kæru Sigurðar A. Sigurjónssonar á hendur íslenska ríkinu.
    Þess vegna er verið að bregðast við því sem orðið hefur í sambandi við þetta sérstaka mál. Auðvitað eru enn þá uppi ákveðnar deilur um það hvort hér sé nægilega langt gengið, hvort þetta sé í þá frjálsræðisátt sem til var ætlast. En ég tel að við höfum gengið nokkuð langt til að reyna að ná samkomulagi í hv. samgn. Við fengum fulltrúa allra þeirra hagsmunasamtaka sem er um að ræða til að ræða málið við okkur. Ég verð að hrósa hv. formanni nefndarinnar fyrir það að hann gerði allt sem hann gat til að ná sem bestri niðurstöðu í þetta frv.
    Það er einu sinni svo að þegar verið er að setja lög á Alþingi þá er auðvitað aldrei hægt að gera það þannig að öllum líki og ég geri ráð fyrir að enn þá verði einhverjir sem ekki eru fullkomlega ánægðir með þær breytingar sem eru gerðar á lögum um leigubifreiðar. En við stöndum í því að við verðum að taka afstöðu til þess að gera það sem okkur finnst eðlilegast og muni þjóna sem flestum og muni þjóna almannahagsmunum.
    Auðvitað eru alltaf deilur um það hvar eigi að vera takmarkanir á fjölda bifreiða, hverjir eigi að hafa um það að segja og til hverra skuli skjóta því máli til úrskurðar. En ég ætla ekki að fara neitt nánar út í það. Ég stend að því að ljúka þessu frv., sem nú er komið til 3. umr., eins og aðrir samgöngunefndarmenn. Ég vil einnig gera grein fyrir því að í sambandi við aldursákvæðið sem er sett inn brtt. um að það sé heimilt að framlengja atvinnuleyfi í eitt ár í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa þá má einnig segja að það sé ákveðið samkomulag. Við kvennalistakonur teljum að þetta eigi að miðast við 70 ár vegna þess að við teljum að hliðstæðar reglur þurfi að gilda og gilda um starf hjá þeim flestum sem eru á vinnumarkaði, þeir þurfa að hætta störfum í hæsta lagi 70 ára gamlir. Hér er um að ræða atvinnustétt sem ber ekki einungis ábyrgð á sjálfri sér heldur einnig á fólkinu sem er verið að keyra í leigubifreiðum eða hópferðabifreiðum. Við teljum að ekki sé hægt við þær aðstæður að hafa þetta algerlega opið eins og raunar hefur verið t.d. bæði hjá vöruflutningabifreiðastjórum og hópferðabifreiðastjórum. Þess vegna varð að samkomulagi að það yrði hægt að framlengja þetta atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs ef leyfishafi telst hæfur til að stunda akstur bifreiða á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar. Um það þarf síðan að kveða nánar á í reglugerð. Eins og ég sagði hefði ég heldur viljað að þetta hefði bara verið miðað við 70 ár. Sú ákvörðun var tekin að gera það með lögunum sem sett voru árið 1989 en hér er þó verið að finna samkomulagsleið. Ég held að þetta sé gott spor í rétta átt og það verði ekki lengra komist að þessu sinni.