Leigubifreiðar

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:19:24 (5025)


[22:19]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Austurl. hlýddi ekki á mína ræðu eins og hann sagði sjálfur og skal ég reyna í stuttu andsvari að svara því sem hann spurði sérstaklega um. Aðalreglan er óbreytt að starfslok eru við 70 ára aldur. Það er aðalregla og meginregla. Í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir þeirri undanþágu að heimilt sé að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur á grundvelli hæfniprófs og læknisskoðunar eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð, eins og segir í tillögunni. Ég tók það fram að reglugerð yrði að setja þannig að þetta hæfnipróf yrði raunverulegt og ekki um neinar afgreiðslur að ræða eftir hendinni.
    Það má kannski segja að það séu engin sérstök vísindi í því að nefna 75 ára aldur. Ég nefndi að það hefði allt eins komið til greina að hæfnipróf hæfist fyrr en við 70 ára aldur. Það má vera að sú breyting verði gerð þegar reynsla kemur á þessi mál. En þetta varð niðurstaða nefndarinnar, átta nefndarmenn styðja þetta og skrifa undir nál. án fyrirvara en einn nefndarmanna hafði fyrirvara varðandi þessa grein eins og sá nefndarmaður hefur lýst.
    Varðandi a-lið í bráðabirgðaákvæði þá lýtur það að þeim bifreiðastjórum sem ekki hafa til þessa verið undanþegnir, verið háðir aldursmörkum, þ.e. vörubifreiðastjórar, sendibílstjórar og fólksflutningabifreiðastjórar fá þennan aðlögunartíma til ársloka í ár og er stuttur aðlögunartími.