Leigubifreiðar

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:34:22 (5031)

[22:34]
     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er dálítið sérkennilegt að þegar komið er að lokum þessa kjörtímabils þá skuli sú sem hér stendur telja sig eiga erindi í ræðustól, sem ekki hefur ekki tíðkast á þessu kjörtímabili og ekki þarf að skýra fyrir hv. þm. hver ástæða er fyrir. Það er kannski enn þá sérkennilegra að það var einmitt hv. 8. þm. Reykn. og orð hans áðan sem urðu til þess að ég stóðst ekki þá freistingu að koma í ræðustól og segja nokkur orð, kannski fyrst og fremst til að taka undir hvert einasta orð sem hann sagði og þakka honum fyrir þessa ræðu. Ég held að í þau ár sem við höfum átt samveru á Alþingi þá sé þetta í fyrsta sinn sem ég hef komið í ræðustól til að taka undir orð hv. 8. þm. Reykn.
    Ég tíðkaði það áður, áður en ég tók við því embætti sem ég hef haft á þessu kjörtímabili, að fara oft í ræðustólinn og eiga orðastað við hv. þm., sérstaklega þegar hann var svo lipur iðulega að minnast á flokkinn minn sem heitir Sjálfstfl. og ég veit að hann man vel. En nú stóðst ég ekki mátið því mér fannst hann tala af svo mikilli visku og víðsýni og umfram svo marga aðra hér að ég varð að taka til máls og taka undir orð hans. Þetta mál hefur verið eitt af mínum áhugamálum og ég hef verið stuðningsmaður þess því ég hef þá afstöðu til aldurs fólks að hann sé svo afskaplega afstæður. Það eru ekki árin sem segja hvenær maður verður gamall eða hver er ungur. Það er heilsan, andleg og líkamleg heilsa, sem ræður því.
    Auðvitað verður að vera til viðmiðun sem fólk getur notað og farið eftir en meginmálið er að hver einstaklingur hafi möguleika til að halda sjálfsvirðingu sinni og fá tækifæri til að njóta og nota hæfileika sína, hvort sem það er til starfa eða á öðrum vettvangi, svo lengi sem heilsa hans andleg og líkamleg leyfir. Það er einmitt það sem mér finnst þetta frv. vera að gera, það sem snýr að þessari starfsstétt sem eru leigubílstjórar.
    Þetta mátti ég til með að segja. Og þótt það sé nú kannski ekki beint skylt þessu máli --- og forseti hafi stundum slegið í bjöllu jafnvel þegar hv. 8. þm. hefur farið svolítið út fyrir mörkin og talað um eitthvað annað en það sem var beint á dagskránni --- en hann minntist á stjórnmálamenn. Ég verð nefnilega líka að taka undir það. Mér finnst fráleitt að stjórnmálamenn eða þeir sem eru í stjórnmálum séu settir út af sakramentinu bara af því að þeir eru orðnir þetta gamlir, 60 ára, 65 ára, 67 ára eins og sú sem hér

stendur, þá megi hún ekki starfa þó starfsþrek hennar sé jafngott og það var kannski fyrir 10 árum. Ég vil nota tækifærið til að segja þetta á þessum stað af því að það kemst til skila með því móti.
    Að öðru leyti er ég mjög ánægð með að þetta frv. fær þennan framgang. Af því hann minntist á japanska og kínverska stjórnmálamenn þá má líka bæta við bandarískum, ráðherrunum sem Clinton hefur sér til aðstoðar og eru yfirleitt komnir yfir sjötugt. Það eru þeir sem gegna veigamestu embættunum í Bandaríkjastjórn.