Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:58:08 (5040)


[22:58]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Enn sakna ég hæstv. fjmrh. því að sú hugsun sem sótti á mig fyrr í kvöld að ein stofnun á dag kæmi skapinu í lag virðist ekki duga á þessum drottinsdegi. Hér er komin ný stofnun, stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.
    Nú er það svo að rannsóknir á norðurslóðum eru vafalaust mikið alvörumál og ekki dreg ég úr því eftir að hæstv. umhvrh. urðu á þau mistök að láta hirða hvítabjörn af vestfirskum sjómönnum þar sem grunur leikur á að hann hafi talið að þar væri á ferðinni bangsi besta skinn og þess vegna hafi þessi mistök orðið. En það er reglan að einhverjar upplýsingar séu gefnar um það til hvaða kostnaðar er verið að stofna því að við erum á þessum kvöldum, seinustu kvöldum sem þing starfar á hverjum vetri, að semja fjárlög framtíðarinnar. Og ég vænti þess að hv. talsmaður utanrmn., umhvn., ég biðst afsökunar á þessum mistökum að hafa flokkað þetta undir utanríkismál þar sem allt Norður-Atlantshafið er lagt undir, en ég vildi gjarnan fá upplýsingar um kostnað. Mér er ljóst að sá mæti maður sem hér á að minnast er alls góðs maklegur þótt liðinn sé. En það er nú einu sinni svo að það væri fróðlegt að vita um hvaða kostnað menn eru að tala því að þegar við samþykkjum tvær stofnanir sama daginn þá erum við óvenju framsækin og það er ekki víst að það sé hægt að breyta þeim öllum í hlutafélög og selja þær með hagnaði þó að einkavæðingarnefnd sé til staðar og þess vegna óska ég eftir þessum upplýsingum.