Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 23:03:33 (5042)


[23:03]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristínu Einarsdóttur fyrir hennar skýringar en þær hefðu eiginlega kallað á nærveru utanrrh. því það er sem sé komið í ljós að hér er um blandað mál að ræða. Hann er ekki viðstaddur til að geta upplýst okkur um það hvort í skjalasafni utanrrn. sé að finna mikið af bréfum frá erlendum aðilum sem hafa áhuga á að taka þátt í því sem hér er verið að leggja til. Ég hef aftur á móti fengið skýringar á því hver hugsunin er í þeim málum að hér er ekki rætt um það hvað stofnunin kosti vegna þess að menn eru ekki með það á hreinu um hvaða stærð af stofnun er að ræða og að menn eru með hugmyndir við erlenda styrki sem er út af fyrir sig ekkert nema gott um að segja ef það á eftir að ganga eftir.