Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 23:50:07 (5046)


[23:50]
     Frsm. félmn. (Gísli S. Einarsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir mjög góða yfirferð yfir þetta mál og þetta nál. Hér er eins og hefur komið fram í ræðum manna mjög viðkvæmt mál. Þetta er mikið nákvæmnisverk og það er ugglaust þannig að menn þurfa að gera það mjög vel upp við sig hvernig þeir skila svona málum frá sér. Ég viðurkenni að það getur verið um göt að ræða þar sem betur sjá augu en auga. En ég sný mér að þeim spurningum sem beint var til mín. Það var spurt um reglugerðarákvæði. Það er ekki gert ráð fyrir reglugerðum heldur að það megi lesa út úr þessum texta þær ábendingar sem til þarf til að leysa þau mál sem upp kunna að koma.
    Ég vil vitna til þess sem hér er í nál. að lögð er áhersla á að sveitarfélagið nái samningum við húseigendur og það er litið til þess að til grundvallar hljóti að vera heildarhagsmunir viðkomandi sveitarfélags. Hins vegar ef aðili sem í hlut á ætlar sér að flytja í burtu þá eru settar inn mögulegar lausnir um hvernig það skal gert og er vitnað til brunatryggingarlaga nr. 48/1994, sem voru sett núna rétt í lok desember, og það er viðmiðunin sem menn hafa, ásamt fasteignamati á viðkomandi stað. Það var líka ljóst að það gat verið mjög örðugt að segja til um í hverju tilviki. Það yrði að taka tillit til þess hvort sá sem á hús byggði það í upphafi eða keypti það af öðrum á gangverði eða fasteignaverði. Þetta voru atriðin sem helst var gert ráð fyrir í okkar umfjöllun.
    Ég vona að þessi svör séu nægjanleg.