Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:21:34 (5050)


[00:21]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að það er nokkur vandi á höndum vegna þess að við erum stödd í miðjum fundi en þingi er engu að síður að ljúka og tilkynnt hefur verið í fjölmiðlum að því eigi að slíta í björtu á morgun. Samkvæmt venju í fundarsköpum hefði kannski verið eðlilegra að kveðja sér hljóðs í upphafi þingfundar um störf þingsins en þar eð ekki er kostur á því þá taldi ég óhjákvæmilegt að kveðja mér hljóðs vegna fréttar sem flutt var í Ríkisútvarpinu á miðnætti, fyrir 20 mínútum eða svo, um það að fulltrúar Sjálfstfl. í heilbr.- og trn. hefðu lagst gegn því að stjfrv. um starfsréttindi sjúkraliða væri afgreitt út úr nefndinni.
    Það þarf ekki að lýsa því í þessum sal að háð var hér 7 vikna sjúkraliðaverkfall og við fylgdumst með því í atkvæðagræðslu um fjárlagafrv. síðustu nóttina fyrir jól að ráðherrar voru í símanum að ljúka þeim samningum svo að heilbrigðisstofnanir gætu tekið til starfa á ný. Hæstv. heilbrrh. mælti fyrir frv. í byrjun þessarar viku og mæltist eindregið til þess að frv. yrði afgreitt. Ég man ekki hans orðalag nákvæmlega en ég held að efnislega hafi það verið á þá leið. Ég held að það sé nokkuð einstakt í þingsögunni að þegar ráðherra mælist eindregið til þess að frv. sé afgreitt með þeim hætti sem heilbrrh. gerði og frv. tengist lausn langvarandi verkfalls þá skuli þingmenn annars stjórnarflokksins allir sem einn í þeirri nefnd sem málið fer til leggjast gegn því að málið sé afgreitt en það kom fram að einungis formaður nefndarinnar, þingmaður Alþfl. sem nú situr hér á forsetastól, og þingmenn Alþb. á fundinum mæltu með því að málið yrði tekið út úr nefndinni.
    Við erum að afgreiða ýmis önnur frumvörp sem tengjast kjarasamningum, nýgerðum kjarasamningum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og það hefur verið farið fram á það af hæstv. forsrh. að þau frumvörp yrðu afgreidd hér og stjórnarandstaðan hefur tekið vel í það. En svo gerist það greinilega hér í kvöld að það frv. sem hér er tengt lausn á langvarandi verkfalli sjúkraliða er stöðvað í heilbr.-

og trn. af þingmönnum Sjálfstfl. Ég ætla ekki að efna til umræðu um þetta hér og nú en vil biðja ráðamenn þessara mála að hugleiða þetta mál í nótt og kanna það hvort ekki er rétt með nýjum degi að breyta þeirri ákvörðun sem tekin var í nefndinni. Ef þetta verður ekki gert þá gefst auðvitað tækifæri til þess að ræða þetta á morgun en ég trúi því ekki fyrr en fullreynt verður að þetta verði niðurstaðan málsins.