Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:32:27 (5054)


[00:32]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Það vill svo til að ég heyrði fréttir Ríkisútvarpsins sem hæstv. forsrh. vitnaði til og ég get staðfest að það kom fram í þeim fréttum sú fullyrðing fréttastofu að því hefði verið lofað af hálfu ríkisstjórnarinnar að umrætt frv. yrði afgreitt á Alþingi. Þessi fullyrðing fréttastofu Ríkisútvarpsins er röng og mér finnst eðlilegt að fréttastofa Ríkisútvarpsins leiðrétti sjálf sínar röngu fullyrðingar því ég get staðfest að það er allt rétt sem hæstv. forsrh. sagði. Við áttum samtöl við forustumenn sjúkraliða, við hétum því að leggja umrætt frv. fram sem stjfrv. sem þýddi að sjálfsögðu það að við ráðherrarnir lýstum því yfir að við mundum greiða frv. atkvæði. En við tókum það sérstaklega fram að við gætum ekki gefið nein fyrirheit um að frv. yrði afgreitt og ég nefndi það aukreitis í öðru samtali við forustumenn sjúkraliða að það var alveg ljóst að frv. sætti mikilli andstöðu á þingi. Það vissum við frá fyrri tíð að þetta yrði stutt vetrarþing og af þeim ástæðum gætum við engin fyrirheit gefið um afgreiðslu málsins.
    Ég óskaði hins vegar eftir því þegar ég mælti fyrir frv., það er rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að frv. fengist afgreitt vegna þess að alveg eins og hæstv. forsrh. er ég sannfærður um að það frv., ef afgreitt hefði verið, hefði verið rétt spor. Ég fylgi því sjálfur og hefði greitt því atkvæði. En það er auðvitað þingið sem ræður og ég fékk þær upplýsingar eins og komu fram hjá formanni nefndarinnar hér áðan að meiri hluti heilbr.- og trn. hefði ekki verið reiðubúinn til að afgreiða frv. Það hefðu aðeins verið tveir hv. þingmenn í nefndinni hefðu verið reiðubúnir til þess.