Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:34:45 (5055)


[00:34]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Mig langar til að leggja fram bókun sem við lögðum fram í hv. heilbr.- og trn., Finnur Ingólfsson, Ingibjörg Pálmadóttir og Guðrún J. Halldórsdóttir, um þetta mál og er hún svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Til að fá úr því skorið hvort frv. til laga um sjúkraliða, mál nr. 386 á þskj. 620, væri hluti af þeim kjarasamningi sem ríkisvaldið gerði við sjúkraliða um sl. áramót var óskað eftir að forsrh., fjmrh. og heilbr.- og trmh. mættu til fundar til nefndarinnar.
    Þar sem forsrh. og fjmrh. komust ekki til fundarins bar formaður nefndarinnar skilaboð frá þeim. Í þeim skilaboðum kom fram að lagafrv. væri stjfrv. og lofað hefði verið að leggja það fram á Alþingi sem slíkt. Það þýddi hins vegar ekki að lofað hefði verið að frv. yrði samþykkt sem lög frá Alþingi. Þessari afstöðu forsrh. og fjmrh. var heilbrrh. sammála. Það kom fram hjá formanni Sjúkraliðafélagsins, Kristínu Á. Guðmundsdóttur, að loforð ráðherrans hefði verið að leggja frv. fram sem stjfrv. og fá það afgreitt á Alþingi. Skilningur formanns á loforðum ráðherra um afgreiðslu frv. var sá að það yrði samþykkt sem lög frá Alþingi. Af þessu má ráða að aðilar leggja ekki sama skilning í þau fyrirheit sem gefin voru við samningagerðir um framgang frv.
    Stjórnarandstaðan hefur jafnan talið það skyldu sína að stuðla að því að stjfrv. sem tengjast gerð kjarasamninga næðu fram að ganga. Nú ber hins vegar svo við að deila stendur um það hverju hafi verið lofað. Undirrituð ætlar ekki að blanda sér í þá deilu. Það verður því að vera á ábyrgð stjórnarflokkanna hvaða afgreiðslu málið fær í heilbr.- og trn. Alþingis.``
    Þetta var sú bókun sem við lögðum fram og mér fannst rétt að lesa hér.