Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:36:51 (5056)


[00:36]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil mótmæla því sem hv. 5. þm. Austurl., Gunnlaugur Stefánsson, sagði að ég hefði lýst því yfir að ég treysti mér ekki til að standa að þessu frv. eins og það væri. Það sem ég gerði, af því að ég sá að það væri ekki samstaða í nefndinni, var að koma með tillögu sem væri hugsanlega hægt að sættast á um. Hitt sagði ég aldrei að ég gæti ekki staðið að þessu frv. en mér fannst eins og málin væru komin að það væri ykkar mál sem eruð í stjórninni eða fylgið stjórninni að málum, hvernig þið afgreidduð það mál sem var ykkar eigið frv. En það er ekki rétt að ég hafi lýst því yfir að ég gæti ekki staðið að þessu. Þetta var það sem ég reyndi að gera en það virðist vera mjög hættulegt í þessu máli yfirleitt að segja orð um það. Ef maður segir eitthvað og reynir að koma með eitthvað til sátta þá er strax snúið út úr fyrir manni og reynt að gera það eins sóðalegt og hægt er.