Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:42:59 (5059)


[00:42]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er komið hér upp afar sérkennilegt mál. Gefið hefur verið loforð í tengslum við kjarasamninga vegna verkfalls sem hafði staðið í 7 vikur hjá mjög fjölmennri kvennastétt þessa lands. Við höfum núna undanfarna daga verið að afgreiða 5 frumvörp sem eru lögð fram í tengslum við kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Það var strax orðið við því að leggja þau fram í þingi og það er verið að ljúka við að afgreiða þau hér. En þetta frv. sem var lagt fram í tengslum við kjarasamninga stórrar kvennastéttar hefur stoppað hér. Er þetta e.t.v. í hnotskurn lýsingin á því hvernig yfirleitt er farið með kvennastéttir í landinu? Er þetta líka niðurstaðan af skýrslunni sem við vorum að ræða um daginn? Mér finnst rétt að vekja athygli á þessari hlið málsins.
    En hvað varðar það sem hæstv. umvhrh. sagði áðan þá hefur það komið skýrt fram í umræðum hjá þeim sem hafa tekið til máls af hálfu minni hlutans í hv. heilbr.- og trn., þ.e. fulltrúum Kvennalistans og Framsfl., að þær ætluðu ekki að standa gegn því að málið yrði tekið út úr nefndinni. En þær settu bókun fram þar sem þær lýstu því yfir að það væri betra að vinna málið betur og leggja fram brtt. En meiri hluti nefndarinnar treystir sér ekki til að afgreiða málið út. Það eru sjálfstæðismenn sem eru að stoppa þetta mál í þinginu og þeir verða að viðurkenna það.