Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:48:15 (5061)


[00:48]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Mér sýnist að hvað þetta mál varðar hafi verið gefin fyrirheit. Þeir sjúkraliðar sem hafa við mig rætt hafa staðfest að þeir hafi aldrei fengið fyrirheit um það að málið yrði að lögum. Ég hygg að þeir hafi fengið fyrirheit um það sem hér kemur fram í bókun og haft er eftir formanni þeirra, að það yrði afgreitt á Alþingi. Það fannst mér þeir fulltrúar sem ég hitti í gær staðfesta við mig.
    Nú vill svo til að það hlýtur að vera skylda þingsins þegar svo stórt fyrirheit hefur verið gefið að þingmenn fái að lokum kost á því að greiða atkvæði um þetta mál. Það leikur grunur á því að stjórnarandstaðan muni styðja málið. Það er vissa fyrir því að heilir tíu ráðherrar hafi lýst því yfir að þeir ætli að styðja málið. Mér kæmi á óvart ef stjórnarliðinn, hv. þm. Eggert Haukdal, mundi ekki gera það einnig þannig að þarna eru einir 38 í hópnum sem eru alla vega tilbúnir að ganga til atkvæðagreiðslu um málið. Og mér finnst að þegar svona fyrirheit eru gefin, þá geti ekki þröngur hópur stjórnarliða stöðvað að málið fari út úr nefndinni og komi til þingsins á nýjan leik til lokaafgreiðslu. Ég vil því biðja hv. nefnd að funda á nýjan leik og fara yfir það hvort þeir vilji ekki vera svo heiðarlegir að gefa þinginu kost á því með atkvæðagreiðslu og það sjáist hvar hver og einn þingmaður stendur í málinu. Ég veit að þessir hæstv. ráðherrar ráða það miklu hér, alla vega þegar eitthvað liggur við, að þeir láta ekki stöðva mál fyrir sér. Það er klárt í mínum huga. Þess vegna hljóta þeir að snúa upp á hendurnar á sínum mönnum og segja þeim að afgreiða málið út og það komi hér til afgreiðslu. Ég er sannfærður um að það var heiðarlega sagt af ráðherrunum fyrir jólin að þeir gáfu sjúkraliðunum þá von að málið kæmi hér til afgreiðslu. Meira sögðu þeir ekki, þeir tryggðu þeim ekki stuðning við málið en þeir lofuðu því að það yrði afgreitt frá þinginu og það eiga menn að standa við. Hæstv. forseti. Það er óásættanlegt annað en málið fái meðferð hér.