Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:10:36 (5071)


[01:10]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Í samræmi við þá spurningu sem hér var varpað fram af hv. 6. þm. Norðurl. e. þá er það rangt hjá honum að ég hafi verið að saka stjórnarandstöðuna um að fylgja ekki fram stjfrv. Það hefur komið skýrt fram í kvöld að þingmenn stjórnarflokkanna voru óbundnir af þessu frv. Það hafði verið kynnt fyrir þeim með þeim hætti sem forsrh. hefur skýrt í dag og þeir tóku afstöðu til málsins í samræmi við þær upplýsingar sem komu fram á nefndarfundum ( GÁ: Hvenær eruð þið bundnir . . . ) og þegar afstaða var tekin til málsins (Gripið fram í.) --- Það væri gott, hæstv. forseti, ef ég fengi frið til þess að fjalla um málið hér.
    ( Forseti (GunnS) : Forseti mun nú stilla til friðar og óska eftir því að hv. þm. auðsýni frið á fundinum.)
    Það er að sjálfsögðu þannig að sá sem hér stendur hefur aldrei sakað stjórnarandstöðuna um að hafa ekki komið þessu máli út úr nefnd. Hann hefur aðeins bent á þá einföldu staðreynd að ef stjórnarandstaðan hefði viljað taka efnislega afstöðu til málsins og verið því hlynnt að það næðist út úr nefnd, m.a. til þess að greiða fyrir einhverjum kjarasamningum, þá hefði hún getað gert það. En stjórnarandstaðan kaus að gera það ekki, alla vega kusu nokkrir þingmenn að gera það ekki og þingmennirnir vilja svo fría sig frá þeirri ábyrgð núna.
    Það er alveg ljóst mál að fulltrúi Kvennalistans gat stutt málið út úr nefnd ef hún vildi. Hún tók þá afstöðu til málsins að það væri ekki rétt að gera það og hlýtur þá að bera ábyrgð á því.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. hlýtur að átta sig á því að menn geta tekið, jafnvel hann, efnislega afstöðu til máls og greitt atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni.