Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:20:10 (5077)


[01:20]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég bað forseta áðan um að úrskurða fyrir mig hvaða túlkun forsetaembættið hefði á því þegar máli væri vísað til 2. umr. og mér fannst svar hæstv. forseta frekar magurt þar sem hann vitnaði eingöngu til greinarnúmers í þingsköpunum en gerði enga tilraun til að útskýra málið frekar. Hæstv. forseti vitnaði til 27. gr. þingskapa og ég ætla að leyfa mér að lesa þá grein, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þegar máli hefur verið vísað til nefndar til athugunar tekur hún ákvörðun um málsmeðferð og getur þá jafnframt falið einum nefndarmanni að vera framsögumaður málsins. Framsögumaður skal þá fyrir hönd nefndarinnar vinna að athugun málsins, gera tillögu um afgreiðslu þess og drög að nefndaráliti þegar hann hefur lokið athugun sinni.``
    Hér stendur að að lokinni afgreiðslu máls eigi að gera drög að nefndaráliti þegar athugun hefur verið lokið. Í mínum huga þýðir það að það er verið að afgreiða mál út úr nefnd því að menn gera ekki drög að nefndaráliti eða nefndarálit yfirleitt nema mál sé afgreitt út úr nefnd. Þannig að ég ítreka fyrirspurn mína: Hver er túlkun hæstv. forseta á þeirri grein sem hæstv. forseti vitnaði í sjálfur að væri svar við fyrirspurn minni, hvað það þýddi þegar máli væri vísað til 2. umr.? Það er mín skoðun að það þýði það að mál á að koma aftur hér inn í þing og ræðast öðru sinni. Ég get ekki séð annað en samkvæmt 27. gr., sem hæstv. forseti vitnaði hér í, þar sem það er beinlínis sagt berum orðum að það skuli gera drög að nefndaráliti að lokinni athugun, að þá megi skilja það á þann hátt að málið skuli koma aftur inn í þing. Ég óska eftir því að forsetaembættið svari með skýrum hætti hvað það þýðir þegar Alþingi greiðir atkvæði um það að vísa máli til 2. umr.