Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:29:11 (5082)


[01:29]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Nú finnst mér farin að færast nokkuð skörin upp í bekkinn þegar hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. kemur og fer að skilgreina stjfrv. Þá er komið í ljós að það eru til tvenns konar stjfrv., mikilvæg stjfrv., þau sem sprengja ríkisstjórnir og svo svona eitthvert rusl og smotterí sem er einskis virði og skiptir engu máli hvernig fer fram. Það er verið að bera upp á okkur framsóknarmenn að við séum flokkshollir, en mér er ljúft og skylt að vitna um það að við vorum alveg klárir á því þegar við vorum í ríkisstjórn hvað voru stjfrv. og hvað ekki og hvað það gilti að vera búinn að samþykkja stjfrv. í þingflokknum. En auðvitað er þetta bara dæmi um stjórnarfarið sem hefur verið undanfarið hjá þessum stjórnarflokkum því að það hefur verið alveg með eindæmum og þetta er náttúrulega góður endir á þessum farsa sem verið hefur í stjórnarfarinu á þessu kjörtímabili.