Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 02:42:42 (5092)


[02:42]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð með það að þetta frv. skuli vera að koma hér til lokaafgreiðslu. Ég vildi aðeins í viðbót við það sem hér hefur verið sagt í kvöld benda á það sem mér finnst vera nokkuð ósamræmi í. Það segir í 2. lið brtt. með frv., með leyfi forseta:
    ,,Á eftir 1. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Sé hagkvæmara talið, til að tryggja öryggi íbúa gagnvart ofanflóðum, er sveitarfélagi heimilt að gera tillögu um að kaupa húseignir í stað annarra varnaraðgerða sem ofanflóðasjóður fjármagnar að hluta eða öllu leyti samkvæmt þessum lögum. Um greiðslur til sveitarfélaga vegna slíkra kaupa fer skv. 4. tölul. 1.

mgr. 11. gr.``
    Í 4. málsl. 11. gr. segir að það megi greiða allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki. Kostnaður við kaup á löndum, lóðum og fasteignum telst með framkvæmdakostnaði. Síðan segir í lok 2. liðs brtt.: ,,Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi.``
    Síðan er skýring á þessari grein í nál. og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin álítur því sanngjarnt að sveitarfélög geti lagt til grundvallar sem viðmiðun að sé eigandi húseignar, sem keypt er vegna varnaraðgerða, úthlutað lóð undir nýtt hús í sama sveitarfélagi, skal greiða fyrir eignina vátryggingarfjárhæð viðlagatryggingar (brunabótamat) og skal greiða fjárhæðina eftir því sem byggingarframkvæmdum miðar. Að öðrum kosti skal greiða samkvæmt fasteignamati. Enn fremur er eðlilegt að litið verði við slíkt uppgjör til 3. gr. laga um brunatryggingar, nr. 48/1994, sbr. 2. gr. laga nr. 150/1994.``
    Það sem hér er vitnað til er í greinargerð með 2. lið brtt. Mér finnst þetta ekki alveg nægilega skýrt og ég hlustaði ekki alveg nógu vel á það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson var að tala hér um áðan, en hann var að ræða um að það þyrfti hugsanlega að setja í reglugerð eitthvað sem væri í greinargerð og það getur hugsanlega verið að það hafi verið þetta sama sem hann hefur verið að nefna. Hann kinkar kolli svo að líklega hefur það verið það sama en ég hef þá hlustað ekki alveg nógu grannt, enda klukkan að verða þrjú að nóttu og maður kannski farinn að missa aðeins athyglina.
    Ég vildi einmitt benda á það að í þessari greinargerð er vísað til brunatryggingar og nefnd tvenn lög í því sambandi. Þau seinni eru lög sem voru samþykkt í lok desember á síðasta ári. Það vill svo til að sú sem hér stendur gagnrýndi einmitt mjög þá lagasetningu. Þá var verið að breyta lögum um brunatryggingar sem voru frá 6. maí 1994, þeim var sem sagt breytt aftur um hálfu ári seinna, þ.e. 30. des. 1994. Það sem þar var verið að gera var að breytt var 3. gr. laganna um brunatryggingar sem einmitt er verið að vitna til í þessari greinargerð. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Vátryggjanda er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld gegn því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni. Frádrætti þessum skal ekki beitt ef endurbygging er eigi heimil af skipulagsástæðum eða öðrum ástæðum sem tjónþola er ekki sjálfrátt um. Hafi ákvörðun verið tekin um að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji vátryggjandi brunabótamat húseignar greinilega hærra en markaðsverð húseignar er vátryggjanda heimilt að miða bótafjárhæð við markaðsverðið viðkomandi húseignar. Rísi ágreiningur um bótafjárhæð skal málinu skotið til gerðardóms sem ráðherra setur nánari ákvæði um í reglugerð, sbr. 5. gr. þessara laga.``
    Í þessari grein segir, sem mikið var rætt við umræðurnar um brtt. rétt fyrir áramótin, að ef vátryggingandi telur brunabótamat húseignar hærra en markaðsverðið þá sé vátryggjanda heimilt að miða bótafjárhæðina við marksverð. Þá erum við eiginlega komin að kjarna málsins, þ.e. ef tekin er sú ákvörðun að greiða út húseignir samkvæmt lögum um snjóflóð og skriðuföll þá er komið að því að meta hvort eigi að greiða brunabótamat eða markaðsverð. En síðan segir í greinargerð með frv. sem hér er á dagskrá, að það skuli gert samkvæmt fasteignamati og þá erum við komin með enn þriðja viðmiðunarverðið.
    Nú er að vísu stundum þannig að fasteignaverð og markaðsmat getur verið nokkuð svipað. Það er þó ekki það sama og það getur verið breytilegt. Þess vegna finnst mér þetta ekki vera nógu skýrt. Það er ekki kveðið á um þetta í lögunum. Þetta er aðeins nefnt í greinargerð og þetta stangast á við þá grein sem vitnað er til. Það er sagt í greinargerð með brtt. við frv. sem við erum að ræða að það sé eðlilegt að við uppgjör á þessum málum sé litið til 3. gr. laga um brunatryggingar, nr. 48/1994, sbr. 2. gr. laga nr. 150/1994 sem ég var að enda við að lesa. Þess vegna finnst mér að um þetta þurfi að kveða nokkuð skýrar á en hér er gert og hvort það er hægt með reglugerðarsetningu, þá vantar heimildina fyrir þeirri reglugerðarsetningu í frv. sem er verið að ræða og á að verða að lögum.
    Það er líka sagt í greinargerð með þessum hugmyndum að ef niðurstaðan verður sú að varnarvirki eða aðrar varnaraðgerðir séu ekki hagkvæmasti kosturinn heldur hagkvæmara að kaupa húseignir er það sveitarfélagsins að gera tillögur þar að lútandi til stjórnar ofanflóðasjóðs og það sé lögð áhersla á að sveitarfélagið nái samningum og þar hljóti að verða lagðir til grundvallar heildarhagsmunir sveitarfélagsins. Ég lít svo á að þetta sé ekki rétt orðað því að ég mundi halda að það yrði að vera litið til hagsmuna húseigenda sem jafnframt væru heildarhagsmunir sveitarfélagsins. Mér finnst ekki vera kveðið nógu skýrt á um það að þetta sé samningsatriði sem eigi að gerast með tilliti til hagsmuna þeirra sem við þetta búa. Nú getur verið að þeir fari ekki alltaf saman við hagsmuni sveitarfélagsins. Þarna finnst mér stangast nokkuð á.
    Ég viðurkenni fúslega að það hefur verið reynt að gera eins vel og mögulegt hefur verið við þetta frv. og það er vissulega mikils virði að það skuli koma fram hér og þær brtt. sem hafa verið gerðar eru til þess að koma til móts við það fólk sem núna býr við þær aðstæður að geta ekki búið í húsum sínum vikum og jafnvel mánuðum saman og það er alveg nauðsynlegt að koma einhverju skikki á það hvernig með þau mál skuli fara. Fólk getur ekki lengur búið við það óöryggi að vera sífellt í húsum sem það getur ekki sofið öruggt í heila nótt. Það er ekki hægt að sætta sig við það til lengdar.
    Í brtt. er einnig komið inn á eitt í viðbót. Það er einmitt í sambandi við það ástand sem nú varir t.d. í Súðavík. Í greinargerð með brtt. segir að í þriðja lagi verði breytingar á 4. tölul. sem geri unnt að

greiða fyrir að húseignir séu fluttar af hættusvæði. Það er einmitt eitt af því sem verið er að ræða um í sambandi við uppbygginguna í Súðavík að hægt sé að flytja gömul hús á öruggari stað og gera íbúunum þar með kleift að búa í þeim áfram. Ég veit að það fólk sem á hlut að máli hefur verið að velta því fyrir sér hvort þetta væri mögulegt og hverjir mundu þá hugsanlega standa straum af þeim kostnaði því að sveitarfélagið sjálft er ekki í stakk búið til þess að taka á sig miklar skuldbindingar eða fjárútlát miðað við þær aðstæður sem þar eru. Ég mundi halda að þessi grein sem vísar til 4. tölul. í brtt. ætti einmitt við í þessu tilfelli. Það er skýrt í greinargerð og á þá við 4. tölul. 2. gr. í upphaflega frv. þar sem segir að greiða megi allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir og þá telst þessi flutningur sem sagt líka vera hluti af því.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vil, eins og ég sagði í upphafi lýsa ánægju með að frv. skuli vera komið fram og ég vænti þess að það leysi nokkuð vanda allra þeirra sem í dag standa frammi fyrir miklum erfiðleikum út af snjóflóum og hættu á snjóflóðum. Ég vænti þess að við ljúkum þessu máli þannig að þeir megi betur við una.