Húsnæðisstofnun ríkisins

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 03:10:58 (5099)


[03:10]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það gengur nú svo glatt með þingstörfin að ég var ekki alveg tilbúinn er forsetinn gaf mér orðið, ég þurfti að leita að skjölum mínum og fann reyndar ekki öll, en þó svona það helsta, frv. og nál. ásamt brtt.
    Eins og fram kemur í nál. stendur nefndin að því að afgreiða þetta mál í gegnum þingið þótt á síðustu stundu sé og það án þess að gera miklar breytingar á efni frv. Það má segja að það sem veldur því að um þetta mál hefur tekist þokkaleg samstaða eða a.m.k. þokkaleg samstaða um að þetta mál verði borið í gegnum þingið á síðustu stundum þinghalds er auðvitað aðdragandi málsins, sem er nokkuð langur og ítarlegur. Nefndarskipan var hrundið af stað á sínum tíma og tók fyrir sem athugunarefni reynsluna af lagabreytingunum árið 1990 á hinum félagslega þætti í húsnæðislöggjöfinni. En eins og þingmönnum mun að sjálfsögðu vera kunnugt voru gerðar mjög miklar breytingar á þeim kafla laganna og eðlilegt að mörgu leyti að tekið yrði út að nokkrum árum liðnum eða þremur árum, svo að nákvæmlega sé það tiltekið, hver reynslan hefði orðið af þeirri breytingu.
    Að vísu skyggði það örlítið á nefndarstarfið að þar var hafður hinn hefðbundni háttur á með skipan nefndarinnar, hinn hefðbundni háttur um samráðsvettvang sem verið hefur í tíð núv. ríkisstjórnar, að einungis skyldu að vinnunni koma fulltrúar stjórnarflokkanna ásamt tilheyrandi embættismönnum þeim til stuðnings. Það er auðvitað ljóður á starfi af þessu tagi, bæði í þessum málaflokki og reynar öðrum, hversu mjög stjórnarflokkarnir eru þjáðir af því að vilja loka stjórnarandstöðuflokkana frá því að koma að málum á undirbúningsstigi og ætlast svo til þess að þeir geri sem minnst vart við sig þegar málið kemur fram hér á Alþingi. Við höfum reyndar dæmi um það annað en þetta, einmitt prýðilegt dæmi til stuðnings þessu sjónarmiði, sem er auðvitað grunnskólafrv. og aðdragandinn að því, nefndarskipunin og vinnan í því máli, sem er auðvitað með endemum og satt að segja ekki því máli mjög til framdráttar.
    Hins vegar vil ég segja um niðurstöðuna úr þessari nefnd sem ég gat um og skipuð var í október 1993, að þátt fyrir ágalla á skipaninni og skorti á samráði þá vann nefndin nokkuð vel að sínu verki og skilaði skýrslu. Við höfum auðvitað haft aðgang að skýrslunni og getað þannig undirbúið okkur nokkuð fyrir væntanlega lagasetningu, þó við vissum ekki nákvæmlega hvað mundi verða lagt hér fram í frumvarpsformi af tillögum þeim og ábendingum sem komu fram úr þessu umrædda nefndarstarfi. En einmitt það og að frv. byggir á þeirri skýrslu hefur gert það að verkum að við höfum getað á þeim tíma sem til umráða var unnið málið með sómasamlegum hætti að mínu mati og gert okkur stjórnarandstæðingum kleift að standa að því að hjálpa málinu hér í gegn. Þannig að það má segja að undirbúningur málsins geri þarna gæfumuninn því ég verð að segja að mér finnst að nefndinni hafi verið ætlaður afar skammur tími til að vinna málið. Að vísu var málið lagt fram í þinginu laust fyrir áramót en kom ekki til nefndar fyrr en fyrir fáeinum dögum og nefndinni var ætlaður afar skammur tími og satt að segja óeðlilega skammur tími, til að vinna það. Þingmenn eiga auðvitað að kosta kapps um að venja ráðherra af vinnubrögðum sem þessum og það verður ekki gert með öðru móti en að þingmenn setja ráðherrum stólinn fyrir dyrnar og venji þá af vinnubrögðum af þessu tagi. Vonandi að þingmenn taki það til betri athugunar á næsta kjörtímabili og láti ekki ráðherra vaða svo mjög uppi sem raun ber vitni á þessu yfirstandandi kjörtímabili.
    En hvað um það, nefndarmenn höfðu haft þennan fyrirvara sem ég gat um og voru því sæmilega búnir til þess að taka málið og vinna það á skömmum tíma, þó ég vilji láta það koma fram að þrátt fyrir að ég standi að því að fylgja málinu eftir í þinginu þá tel ég að við hefðum getað unnið verkið betur. Mér finnst ég ekki hafa unnið það eins vel og ég hefði átt að gera, m.a. vegna þess hversu knappur tíminn var. Enn fremur vil ég líka láta koma fram að í starfi nefndarinnar á þeim fundum sem við tókum málið fyrir fengum við nokkra gesti til þess að spyrja þá út úr um efni málsins og fá skoðun þeirra á breytingunum. Og þrátt fyrir að þeir hefðu haft skamman tíma til þess að vinna úr frv. sína álitsgerð þá komu ákveðnir hlutir skýrt fram sem mér finnst ástæða til að nefna hér og eru sagðir til þess að menn líti ekki svo á að með þessari lagasmíð nú sé einhverjum endanlegum áfanga náð í endurskoðun laganna. Þvert á móti vil ég meina að við séum með málið í þeim farvegi að það þurfi að yfirfara lögin öllsömul og hugsa suma þætti þeirra upp á nýtt.
    En það kom fram, sem mér þótti mjög athyglisvert, hjá mönnum sem vinna við að framkvæma lögin sú almenna athugasemd að lögin væru mjög óskýr hvað varðar skiptingu á ábyrgð á milli ríkisins og sveitarfélaga. Það þótti mér mjög athyglisvert að heyra því það var eitt af meginatriðunum með lagabreytingunum 1990 að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna, að færa verkefnin í húsnæðismálum frá ríkisstofnuninni yfir til hvers og eins sveitarfélags.
    Það er greinilegt að frumvarpshöfundar á þeim tíma hafa ekki hugsað það mál nógu vel og ekki skilgreint verkefni hvors aðila um sig nægilega vel til þess að það væri ásættanlegt. Niðurstaðan hefur eiginlega orðið sú, samkvæmt ábendingum þessara aðila, að lögin séu of óskýr hvað þetta varðar og sérstaklega hvað varðar ábyrgðina. Og ef ég hef skilið þetta rétt þá hefur í reynd framkvæmdin orðið þannig að sveitarfélög hafa fengið meira að segja um framkvæmd tiltekinna atriða án þess að bera ábyrgð til fullnustu á móti þeim íhlutunarrétti. Það brýtur auðvitað gegn meginbreytingunum sem menn voru með í huga árið 1990, að samhliða því að flytja verkefni þá ættu menn líka að vera að flytja ábyrgð á verkefninu yfir til þess aðila sem fær verkefnið til sín. Það er hins vegar algjör stjórnsýslulegur bastarður að flytja verkefnið frá einum stað til annars en skilja ábyrgðina að nokkru leyti eftir. Það kann ekki að leiða til annars en ófarnaðar þegar horft er til lengri tíma. Þetta atriði, þessi almenna athugasemd sem kom svo sterkt fram gerir það auðvitað að verkum að það er nauðsynlegt að hugsa þetta atriði, löggjöfina, upp á nýtt og skilgreina nákvæmlega hvert atriði stig af stigi. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hver eigi að vinna hvað, hve mikið eigi að vera hjá sveitarfélögunum, hve mikið hjá ríki. Það er allt á sínum stað, mismunandi sjónarmið um það atriði. En þegar menn hafa gert það upp við sig hvernig þeir vilja skipta verkum þá eiga menn að draga línuna og semja lögin þannig að þetta sé alveg skýrt og saman fari úrlausn verkefnisins og ábyrgðin á því.
    Það er hins vegar af eðlilegum ástæðum dálítið flókið því ef menn vilja flytja ábyrgð þangað, þar sem ákvörðunin er tekin, þá þýðir það að menn verða að flytja fjármagnið. Það verður ekki gert öðruvísi en að fjármagnið verði þá flutt frá ríkisstofnuninni, Húsnæðisstofnun, yfir til einstakra sveitarfélaga. Og þrátt fyrir allan velvilja minn í garð sveitarfélaga þá efast ég um að það sé fær leið að færa verkefnið svona. Þannig að ég hef löngum talað fyrir því að menn reyndu að koma á samstarfsvettvangi milli ríkisins og sveitarfélaga og þá helst á þann veg að menn breyttu Húsnæðisstofnun, notuðu hana sem þennan samstarfsvettvang þar sem bæði ríkisaðilar og sveitarfélagaaðilar kæmu að stjórnun og stjórnuðu í gegnum þennan sameiginlega vettvang og skiptu honum kannski upp eftir landshlutum. Þannig væri tiltölulega auðvelt að teikna upp stjórnskipulag sem gæti gengið, væri skýrt afmarkað og færu saman verkefni og ábyrgð og báðir aðilar kæmu að, yrði raunverulegur samráðsvettvangur. Ég held að menn ættu að skoða þetta í verulegri alvöru.
    Að öðru leyti en svona almennt um þetta, eins og ég hef rakið og kom fram í umsögnum fróðra manna og ég læt hér fylgja og geri þessar skoðanir að mínum, því ég hef sjálfur sýslað nokkuð með þessi verkefni og þekki þau nokkuð vel og má kannski segja að þessi sjónarmið séu mín að verulegu leyti og ég geti haft almennan fyrirvara við þessa löggjöf út frá þessum sjónarmiðum, þá vil ég segja um einstök efnisatriði í þessu frv. að þar er flest tæknilegs eðlis sem er verið að setja niður og er greinilega unnið í samvinnu manna sem hafa það sem daglegt verkefni að útfæra og vinna eftir þessari löggjöf. Þannig að þeir þekkja þetta greinilega út og inn og mér sýnist að það þurfi ekkert að efast um að þar séu menn að breyta því sem þarf til betri vegar og hef ekki neinar efasemdir um flest atriðin í þessum breytingum. Það eru ekki mörg atriði sem þarf að taka pólitíska afstöðu til. Þó eru fáein og ég vil nefna þau.
    Ég vil fyrst segja að ég harma að ekki skuli hafa náð fram að ganga sú breyting sem er í frv. sjálfu um auknar heimildir til að færa á milli lánaflokka, samkvæmt 9. gr. frv. Það er í mínum huga kannski sú breyting sem menn þyrftu að huga að í alvöru, að gera kerfið sveigjanlegra eftir einstaklingum þannig að einstaklingarnir geti fært sín lán úr einum lánaflokki yfir í annan eftir breytilegum aðstæðum. En í dag eru heimildirnar til þess að fara með lán á milli lánaflokka afar þröngar og raunar ekki almennar heimildir heldur undanþáguheimildir, sem gerir málið býsna snúið oft á tíðum. Við sem höfum starfað við þessa stofnun vitum að oft er þörf á því að geta sýnt sveigjanleika því það er þægilegra viðureignar að geta leyst úr vanda tiltekinna einstaklinga með því að breyta lánskjörum og fyrirkomulagi á lánunum sem hvíla á íbúðinni fremur en að flytja viðkomandi einstakling úr íbúðinni yfir í aðra íbúð sem hefur þá þessa tilteknu gerð lána sem þörf er á eða á við í það og það skiptið. Þetta hef ég oft orðað þannig að við eigum að ákvarða lánskjörin út frá einstaklingnum sjálfum, högum hans, en ekki að raða einstaklingum inn í steypuna. Það er ekki íbúðin eða steypan sem á að ráða því hvernig við röðum fólkinu inn,

við eigum að láta kjör og hagi einstaklinganna ráða kjörum á lánunum. (Gripið fram í.) Já, ég vona að mönnum þyki þessi hugsun heldur til bóta og ég tala fyrir henni þar sem ég hef tök á og vonandi tekst að afla henni stuðnings á næstunni, næstu árum skulum við segja, þannig að hún verði tekin upp sem almenn regla sem ég vona. Þetta náði því miður ekki fram að ganga og skal ekkert fjölyrt um það. Ég kýs fremur að standa að því að flytja þetta mál áfram en að gera þetta atriði að ágreiningsefni og láta það ágreiningsefni svo verða til þess að stranda öðrum þáttum málsins.
    Þá vil ég svo aftur nefna annað atriði sem ég er ekki verulega sáttur við og er kannski fyrst og fremst ástæðan fyrir því að ég set fyrirvara undir mitt nafn á nál. og það er breytingin í 25. gr. frv., breytingin á því ákvæði sem átti að gera það kleift að lækka vexti á lánum þegar kjör viðkomandi einstaklings versnuðu frá því sem þau höfðu verið þegar ákveðið var að hækka vextina. Og í takt við þann anda sem ég rakti áðan varðandi það að það ætti að vera hægt að flytja lán á milli flokka eftir högum einstaklinga eða viðkomandi aðila, þá er ég að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að menn eigi að geta fært vexti upp og líka niður eftir því sem hagir hvers eiganda eða leigjanda breytast. Þannig að ég sé eftir þessari tillögu í frv. og finnst að sú tillaga, sem ég reyndar stend að að flytja ásamt öðrum, vera lakari en hin. Ég ætla ekkert að skjóta mér undan því að taka ábyrgð á þeirri brtt., en ég lýsi skoðun minni til hennar og því að þessi breyting er helsta ástæðan fyrir því að ég set fyrirvara við álit mitt, svo það komi skýrt fram að ég hafi ekki verið fyllilega sáttur við allt sem hér er á blöðum.
    Þá vil ég líka geta þess sem mér finnst hafa breyst til betri vegar, því auðvitað er það líka þannig að í meðförum nefndarinnar breyttist frv. til betri vegar. Þar vil ég fyrst og fremst geta breytingarinnar á 4. gr. frv., um skipan fulltrúa í húsnæðisnefndir. Í frv. hafði verið gert ráð fyrir því og var lagt til að ýta út fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar úr húsnæðisnefndunum og fækka í nefndunum eða gera það mögulegt að fækka í nefndunum allt niður í þrjá. Niðurstaðan úr vinnu nefndarinnar og samkomulagsumleitunum víðar varð sú að hafa fyrirkomulagið þannig að húsnæðisnefndirnar skyldu verða ýmist sjö manna eða fimm manna. Í fimm manna húsnæðisnefndum yrðu tveir frá verkalýðshreyfingunni og í sjö manna húsnæðisnefndum yrðu þrír úr verkalýðshreyfingunni. Þar er komið verulega til móts við þau sjónarmið sem ég hef sett fram og e.t.v. fleiri og ég hygg að það megi fullyrða að svo hafi verið, að fleiri settu fram þessi sjónarmið og ég er fyllilega og prýðilega sáttur við þessa niðurstöðu, að halda í raun óbreyttri skipan húsnæðisnefndarinnar og finnst ekki nema sjálfsagt að samþykkja á móti þá brtt. frá núverandi skipan að formaður húsnæðisnefndar verði ævinlega kosinn af sveitarstjórn.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta mikla frv. Það er óvanalegt að þurfa ekki lengri tíma til að fjalla um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, svo stórt mál sem það er, í geysimörgum greinum, en það skýrist m.a. vegna þess sem ég gat um að margt af þessu, kannski býsna margt, er í raun og veru tæknilegs eðlis þannig að ég tel óþarfa að rekja það lið fyrir lið.
    Ég vil svo að lokum geta um eitt atriði sem ég gleymdi áðan sem er í frv. og ég styð og lýsti yfir strax við 1. umr. málsins og það er lækkunin á afskriftarprósentu í íbúðum þeim sem byggðar eftir gildistöku laganna frá 1980, en sú afskriftarprósenta hafi verið ákveðin á sínum tíma 1,5% með lögunum frá 1990. Að vísu var í þeim lögum gert ráð fyrir að það mætti lækka afskriftina um helming eftir 20 ára eignarhald, en núna er tekin upp sú regla að hafa 1% öll árin. Þannig að breytingin er bæði til hækkunar og lækkunar, en á heildina litið og miðað við meðaleignarhaldstíma er hún til lækkunar og þar af leiðandi til verulegra bóta fyrir þann sem á íbúðina og eðlilegt og sjálfsagt að styðja þessa breytingu.
    Virðulegur forseti. Ég hef þá lokið við að gera í stuttu máli grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og ég vil svo að lokum færa formanni nefndarinnar þakkir fyrir samstarfið við vinnu þessa máls og öðrum nefndarmönnum í félmn.