Húsnæðisstofnun ríkisins

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 03:33:45 (5100)


[03:33]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég að umtalsefni sérstaklega 25. gr. þessa frv. og það var að gefnu tilefni vegna þess að efnislega voru þar atriði sem við kvennalistakonur höfðum flutt í sérstöku frv. sem er til meðferðar í félmn. og hefur ekki farið þaðan út mér vitanlega. Ég gladdist mjög að sjá þessa grein þarna, en því miður upplýstist það í umræðunum hjá hæstv. félmrh. að þá þegar hafði hún í hyggju að leggja til við nefndina væntanlega að þarna yrðu á þær breytingar í stórum dráttum sem nú hafa séð dagsins ljós.
    Það er að mörgu leyti dálítið sérkennilegt við þessa breytingu við 25. gr. að hún felur í sér bæði jákvæða og neikvæða þætti. Jákvæðu þættirnir eru þeir að það eru fleiri ár tekin til viðmiðunar þegar taka skal afstöðu til hækkunar heldur en er bæði í núgildandi lögum og eins í upphaflegu greininni eins og hún er í frv. Vondu fréttirnar eru hins vegar þær, sem hefur komið fram í hverri einustu ræðu þeirra nefndarmanna sem hafa gert grein fyrir sínum fyrirvörum, að þarna er því miður allt að þriggja ára bið eftir endurskoðun til lækkunar aftur ef hagir fólks breytast á nýjan leik og það er verr í stakk búið að mæta hækkuðum vöxtum. Ég verð að lýsa ákveðinni undrun á því að þetta skuli ekki hafa fengist lagað hér. Hitt er annað mál að hvort sem litið er á greinina eins og hún er í frv. eða í brtt. þá er þetta vissulega mikil bót frá núverandi fyrirkomulagi og það er auðvitað það sem skiptir meginmáli. Þar af leiðandi er betra að sjá

það með þessum hætti en ekki. En ég ítreka það að þarna hefði verið mjög ánægjulegt að sjá þetta efnisatriði 25. gr., eins og hún er í frv., fá að standa.
    En við þessu er ekkert að gera og ég verð að lýsa sérstakri aðdáun minni á starfi félmn. að þessu frv. og raunar þeim undirbúningi sem málið hefur fengið vegna þess að þegar 1. umr. fór hér fram kom það fram í umræðunni að það voru ekki margir sem gerðu sér vonir um að það mundi ganga upp að afgreiða þetta annars ágæta frv. á svo undraskömmum tíma. En það tókst og það sést líka að það hefur verið unnið vel í málinu. Auðvitað hefði meiri tími og betri yfirlega sjálfsagt skilað enn betra frv., en í grundvallaratriðum held ég samt sem áður að það hafi tekist eins vel til og hægt var miðað við aðstæður að þessu undanskildu. Raunar verð ég að taka undir það líka með hv. síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Vestf., að tilfærsla sú sem er á milli lánaflokka og lögð var til í síðari efnismálsgr. 9. gr. er hugmynd sem hlýtur að vera það sem koma skal og ég vona sannarlega að við munum sjá það í framtíðinni. En þar sem ég kom ekki að því máli og hef ekki kynnt mér það sérstaklega þá er ég ekki í stakk búin til að fara um það mál fleiri orðum.
    Ég vil þakka hv. félmn. sérstaklega fyrir hennar starf að þessu og það að koma þessu máli hér áfram í þó þetta góðri sátt. Þar af leiðandi styð ég frv. sem ég hefði viljað sjá í ögn öðrum búningi og gera það í ljósi þess að þarna er samt sem áður verið að gera svo jákvæðar breytingar að þær skipta meira máli heldur en það að stíga skrefið til enda. En ég vona að í framtíðinni muni fólk ekki þurfa að bíða í þrjú ár eftir leiðréttingu ef það stendur skyndilega illa að vígi eftir að hafa verið metið upp í vöxtum.
    Það er eitt lítið atriði í viðbót sem mér finnst ástæða til að koma á framfæri og gerði grein fyrir við 1. umr. og það segir okkur mest um það hvað tímar geta breyst snögglega að þegar þetta atriði var sett inn, möguleiki á endurmati á vöxtum, þegar breytingar voru gerðar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins árið 1990, held ég að það hafi verið, þá sat ég í félmn. og þá hvarflaði ekki sú hugsun að nokkru okkar sem unnum að því á þeim tíma að það gæti verið þörf á slíku ákvæði. Þá var það venjulega svo hjá fólki að það var fyrst og fremst gert ráð fyrir að hagur fólks batnaði, atvinnuleysi hafði ekki stungið sér niður eins og hefur verið á þessu kjörtímabili og þessi hugsun var fólki á þeim tíma blessunarlega fjarri. En þannig hafa tímarnir breyst og ég held að við verðum að fylgjast vel með og hlusta vel á það sem er að gerast.
    Að svo mæltu vona ég að þetta frv. verði að lögum, þrátt fyrir þessa ókosti, áður en þing lýkur störfum nú.