Lánasjóður sveitarfélaga

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 03:42:30 (5102)

[03:42]
     Frsm. félmn. (Gísli S. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 854 um frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 35 frá 29. apríl 1966, með síðari breytingum.

    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Húnboga Þorsteinsson frá félmrn. og frá Sambandi ísl. sveitarfélaga Þórð Skúlason og Magnús Karel Hannesson.
    Nefndin mælir með að frv. verði samþykkt óbreytt og undir þetta ritar öll hv. félmn.
    Herra forseti. Ég vil gjarnan fá að nota þetta tækifæri, vegna þess að ég hef hér fengið tækifæri fyrir hönd félmn. til að mæla fyrir fjölmörgum málum sem nefndin hefur af miklum dugnaði og elju tekið fyrir á undanförnum tíu dögum, til að þakka nefndinni sérstaklega gott samstarf við mig sem formann félmn. Ég vil þakka fyrir bæði góð ráð og leiðbeiningar. Hér kom fram áður í umræðunni að um skamman tíma hefði verið að ræða til umfjöllunar. Þá má segja að hvert mál þurfi ákveðið ferli og frá áramótum hefur þinghaldið aðeins verið fimm vikur sem ræður því að hratt hefur verið unnið síðustu tíu daga. En ég vil ítreka, herra forseti, sérstakar þakkir til allra hv. þm. sem hafa unnið í félmn. að þessum málum sem hér hafa flest litið dagsins ljós í dag ásamt og með hinu viðamikla máli sem fjallar um snjóflóð og er lagafrv. varðandi snjóflóð og skriðuföll.
    Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og mælist til þess að málið fái eðlilegan framgang.