Tóbaksvarnalög

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 03:45:52 (5103)


[03:45]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Í ljósi þess að hér voru menn að störfum langt fram eftir nóttu --- í fyrradag ætti maður kannski að segja --- nei, í gær, og nú er klukkan orðin fimmtán mínútur í fjögur að nóttu til og það er gert ráð fyrir almennum fundi í þinginu klukkan hálfellefu í fyrramálið og nefndarfundum, a.m.k. hjá þeim sem hér stendur, kl. níu í fyrramálið, þá hlýt ég að inna hæstv. forseta eftir því hvers lags meðferð þetta er eiginlega á hv. þm. Að ætla þeim að standa hér fram undir morgun og hefja núna þunga umræðu sem augljóst er að mun standa lágmark til kl. 7--8 í fyrramálið og ætla mönnum síðan að fara á fund klukkutíma seinna, þá hlýtur maður að velta fyrir sér bara almennum mannréttindum.
    Ég held að það sé til í landslögum lagabókstafur um það að menn eigi rétt og heimtingu á ákveðinni lágmarkshvíld á sólarhring. Ég spyr hæstv. forseta að því hvort ekki sé eðlilegt að hv. Alþingi geri tilraun til að virða landslög og gefi mönnum tíma til að hvílast eins og öðrum vinnandi mönnum í þessu landi. Ég tel, og hæstv. forseti veit það ósköp vel, að þetta mál sem nú á að fara að taka til umræðu taki meira en nokkrar mínútur. Það er mál sem kallar á mikla umræðu. Þess vegna er, eins og ég sagði áðan, alveg augljóst að þetta mun nánast renna saman við þann fund sem á að vera í fyrramálið, mun nánast renna saman. Þannig að ég hlýt að spyrja forseta að því: Hversu lengi hyggst forseti halda þessum fundi áfram? Er virkilega meiningin að láta sólarhringana renna saman og brjóta með því hin svökölluðu vökulög, brjóta þau á alþingismönnum? Að sjálf löggjafarsamkoman, sem á að setja lög fyrir þjóðina, standi fyrir því að brjóta landslögin sjálf? Við erum auðvitað nú þegar búin að því, en það er þó hægt að laga skaðann örlítið þannig að þeir þingmenn sem þó eru að sinna þingskyldum sínum fái sinn lögbundna hvíldartíma.
    Ég vil spyrja hæstv. forseta að því: Þeir þingmenn sem ekki eru hér til staðar nú, hafa þeir fjarvistarleyfi? Ef svo er ekki þá óska ég eftir því að þeir hv. þm. verði kallaðir út því það er náttúrlega engin hemja að hér séu sárafáir þingmenn, misvel á sig komnir, sitjandi í þingsalnum. Á meðan aðrir liggja heima og steinsofa þá er okkur ætlað að vinna hér fyrir þá. Ég fer fram á það, ef það á að halda hér fundi áfram, að Alþingi Íslendinga verði kallað út og menn sinni sínum störfum.