Tóbaksvarnalög

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 03:49:57 (5105)


[03:49]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :

    Hæstv. forseti. Það er kannski ekki nema von að hv. þm. sé farið að förlast svolítið. Það er hárrétt hjá hæstv. forseta að fundur í hv. efh.- og viðskn. er kl. 12 en ekki kl. 9. Hann var kl. 9 í morgun eða í gær reyndar, þannig að ég ruglaðist aðeins í því. En það breytir auðvitað ekki meginþætti minnar gagnrýni á þau vinnubrögð og það vinnuálag sem hér er sett á örfáa þingmenn á meðan aðrir liggja heima og sofa á sínu græna eyra og hafa það huggulegt. Það er auðvitað engin hemja að ætlast til þess að menn séu að vinna hér núna fram til kl. 7, 8 eða 9, jafnvel kl. 10 í fyrramálið. Ég veit ekki hvað aðrir þingmenn tala mikið, en ég þarf að tala töluvert í þessu máli og mér er ætlað að vera kominn hér á fund kl. hálfellefu í fyrramálið. Ég spyr: Eru þetta mannréttindi á Íslandi? Ég spyr: Stenst þetta þá nýju stjórnarskrá sem við vorum að ræða hér í gær? Ég efast um það.
    Ég óska eftir því að fundi verði slitið, honum verði slitið, vegna þess að þetta er auðvitað engin hemja. Ég verð að segja það hæstv. forseti og ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól, að þingflokkur Sjálfstfl. og þingflokksformaður hans semur ekki fyrir mína hönd. Ég vil upplýsa það að á þingflokksfundi hjá Sjálfstfl. í síðustu viku kom það fram að þeir litu ekki á mig sem sinn fulltrúa. Það er því staðfest af þeirra hálfu líka að þeir semja ekki fyrir mína hönd. Þannig að ég er ekki aðili að slíku samkomulagi sem hæstv. forseti vitnaði í áðan.
    Ég ítreka beiðni mína til hæstv. forseta um að hann fresti fundi eða slíti fundi og gefi mönnum kost á því, því eftir því sem mér skilst þá er síðasti dagur þingsins á morgun og síðasti dagur kjörtímabilsins, að menn séu ekki keyrðir hér í gegnum sólarhringana saman, örfáir þingmenn, eins og nú er ætlunin að gera. (Gripið fram í.) Það er mikið þrek í krötum heyrist hér kallað fram í. ( Gripið fram í: Ég sagði okkur.) Okkur. Hv. frammíkallandi á kannski við mig og sig sjálfan. (Gripið fram í.) Ég efast ekki um það. En það er ekki málið. Það er prinsippið sem hér er um að ræða og þegar menn ætla að halda fundi þannig að sólarhringarnir ná saman þá er það engin hemja. Þá er verið að brjóta á mönnum réttindi og það tel ég að sé ekki sæmandi hinu háa Alþingi.