Tóbaksvarnalög

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 04:04:14 (5108)


[04:04]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. sem spurðist fyrir um hvernig sá sem hér stendur hygðist koma í veg fyrir innflutning á fínkorna tóbaki hefur misskilið hlutverk þingmannsins. Ég er ekki í lögregluhlutverki og hef ekki hugsað mér að vera það þó að ég flytji hér þingmál. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. skilji að það er verið að banna innflutning á þessari tóbakstegund. Frv. gerir ekki neinar sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir smygl ef það er það sem hann veltir fyrir sér. Það eru engin ákvæði um það.
    Að sjálfsögðu er sá sem hér stendur mikill fulltingismaður frelsis á öllum sviðum. En það er einu sinni svo að þeir sem eru fulltingismenn frelsis átta sig nú einmitt á því að frelsi einstaklingsins er takmarkað við það að hann gangi ekki á frelsi annarra. Og það sem þetta frv. gengur út frá er einmitt réttur manns til þess að þurfa ekki að lifa við þá mengun sem aðrir menn skapa sem reykja. Þar af leiðandi er þessi grundvallarregla sem er mjög mikilvæg að sjálfsögðu byggð á frelsinu. Það er frelsi til þess að þurfa ekki að búa við kúgun frá öðrum sem kjósa það að reykja en lifa í samfélagi við fólk sem kýs að reykja ekki. Ég held því að hv. þm. hljóti að átta sig á því að í þessu frv. er ekki í sjálfu sér neitt sem gengur í bága við frelsishugsjónina sem slíka.
    Það var spurt hvort þetta mundi ekki leiða til mikils lögregluríkis. Ég held satt best að segja að hv. þm. þurfi ekki að ferðast víða til þess að átta sig á því að til þess að gera framsækinn löggjöf á Íslandi hefur leitt til þess að hér standa menn í þessum efnum í sambandi við þessa neyslu miklu framar en aðrar þjóðir. Tóbaksneysla háir gífurlega mikið Evrópuþjóðunum og þeim mun meir sem sunnar dregur. Tóbaksauglýsingar og framleiðendur ganga núna berserksgang í Austur-Evrópu og eru að mynda þar gífurlegt neyslumynstur.