Tóbaksvarnalög

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 04:09:09 (5110)


[04:09]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú er það svo að 2. gr. frv. snýr eiginlega málinu við. Það hefur verið þannig lengst af að þeir sem ekki hafa viljað búa við reykingar annarra hafa orðið að sætta sig við þær. Hefur það, hv. þm., kostað stríð á Íslandi? Nei. Þeir sem hafa ekki viljað reykja en hafa orðið að þola reykingar annarra hafa sýnt tillitssemi. Ég kannast ekki við þessa lýsingu á íslensku þjóðinni sem hv. þm. er að lýsa hér.
    Íslendingar eru tillitssöm þjóð og á sama hátt eins og þeir sem hafa ekki viljað reykja og hafa orðið að þola reykingar hafa gert það í friði við reykingamennina þá mun þetta snúast við og reykingamennirnir munu sýna hinum skilning. ( GÁ: Á hvað löngum tíma? Þeir munu virða lögin og ég er ekki í nokkrum vafa um það að ef hv. þm. reykir þá mun hann bara sýna lögunum virðingu og draga úr reykingum sínum.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að mikilvægir þættir í þessu frv. eru annars vegar að með því að draga úr reykingum er verið að draga úr því fordæmi sem reykingarnar skapa. Hv. þm. hefur mikla trú á fræðslu og ég er honum sammála um það, það er sérstaklega kveðið á um aukna fræðslustarfsemi í þessu frv. þannig að nú getur þingmaðurinn tekið gleði sína og stutt þetta mál því að ég held að það fari mjög heim og saman við hans áherslur í tóbaksvarnamálum.