Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 11:12:47 (5116)

[11:12]

     Frsm. minni hluta samgn. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns færa starfsmönnum Vegagerðarinnar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf, það er ástæða til að gera það, það hefur verið gott í allan vetur. Þeir hafa brugðist vel við að veita allar upplýsingar sem beðið hefur verið um, ekki aðeins meiri hluta nefndarinnar heldur ekki síður minni hluta nefndarinnar. Ég færi þeim ágætar þakkir fyrir þeirra störf og samstarf og ekki síður þakka ég ágætt samstarf og liðlegheit starfsmanns nefndarinnar.
    Ég hlýt að harma það að hæstv. samgrh. skuli vera sjúkur í dag þegar jafnstórt mál er á dagskrá og hér er nú og ég velti því fyrir mér þegar ég sé að enginn af hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar, eins og þeir sóttust þó eftir því að komast í ráðherrastólana, skuli sitja hér inni við umræðu um þetta mál. Það hlýtur að vekja athygli okkar.
    Ég veit satt að segja ekki hver það er sem svarar fyrir hæstv. samgrh. en svo sannarlega mun hann hér í allan dag þurfa að veita þingheimi og þjóðinni skýringar á því máli sem hér er til umræðu. Ef einhver hefur haft vilja til þess og skilning á því að við þyrftum að hafa þessa umræðu á skikkanlegum nótum þá kom hv. formaður samgn. í veg fyrir það. Hans ræða áðan var ekki til þess fallin að liðka fyrir umræðum um þetta mál. Slíkar voru fullyrðingar hans að mér raunverulega blöskraði vegna þess að ég er búinn að starfa með þessum ágæta þingmanni býsna lengi og ég kannaðist ekki við þessa tóntegund sem þarna kom fram.
    Hv. þm. og talsmaður vék að því mjög sterklega í máli sínu að það væri mikið fjármagn sem færi til vegagerðar og þess vegna ætti hann erfitt með að skilja hvernig á því stæði að minni hluti nefndarinnar gæti ekki skrifað undir það álit sem hann samdi. Það er ósköp einfalt svar við því að það er hyldýpi, hv. þm. Pálmi Jónsson, á milli skoðana minni hlutans, stjórnarandstöðunnar á Alþingi, og skoðana meirihlutaflokkanna á Alþingi um meðferð þessa fjár. Það er hyldýpi í skoðunum okkar. Menn eru að kasta fyrir róða reglu sem viðhöfð hefur verið í mörg, mörg ár í fullri sátt. Ég man ekki satt best að segja hvernig það var þegar hæstv. frsm. meiri hlutans var ráðherra, hvaða reglur voru þá í gildi, hvort þær voru svo óréttlátar að það þurfi að kasta þeim nú fyrir róða. Mér er ekki grunlaust um það að þessi ágæti þingmaður hafi oftar en einu sinni komið hér upp og talað fyrir og lofsungið þá skiptireglu sem Vegagerðin hefur unnið eftir og full sátt verið um hjá þingmönnum.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson gerir einnig lítið úr tillögum okkar minni hlutans og segir að þær séu ómerkilegar og reyndar hafi honum ekki gefist tími til þess að lesa þær og bætti svo við að þær væru reyndar engar. Ég sá það að hv. þm. og formaður nefndarinnar var þó með gleraugun þannig að hann hefði getað séð að það er flutt sérstök tillaga við þetta mál af nefndinni sem skýrir það af hverju við áttum ekki samleið. Það veit hv. þm. og formaður samgn. að það er illt að þurfa að liggja undir slíkum orðum eins og komu fram í upphafsorðum hans áðan vegna þess að enginn á að vita það betur en hann, formaður þessarar nefndar, hver hefur haldið starfi nefndarinnar uppi á liðnum vetri. Það eru ekki samþingmenn Pálma Jónssonar og það eitt er öruggt. Þeir sem hafa setið í allan vetur með hv. þm. á fundum eru fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Ég hefði gaman af því ef hv. þm. Pálmi Jónsson vildi koma hér upp á eftir mér og mótmæla því sem ég segi. Það væri fróðlegt fyrir okkur sem erum búin að sitja nánast hvern einasta fund samgn. með hv. þm. Pálma Jónssyni. --- Ég sé að hann brosir og nikkar til mín og samþykkir þar með að það sé rétt sem ég er að segja.
    Hv. þm. segir líka að öllu samstarfi við meiri hluta nefndarinnar hafi verið hafnað af minni hlutanum. Að öllu samstarfi hafi verið hafnað og það hafi engin ástæða verið til þess. Auðvitað var ástæða til þess vegna þess að hv. þm. og meiri hluti nefndarinnar hafnaði því að hlusta á röksemdir okkar og tillögur, var ófáanlegur til að fallast á þær. Ég ræddi persónulega við hæstv. samgrh. og reyndi að ræða við hann um það hvort hægt væri að leiðrétta þá hluti sem við höfðum verið að tala um þannig að við gætum staðið saman í þessu máli. Það var vitavonlaust verk að reyna að ná sáttum um þetta mál við hæstv. samgrh. Ég hafna því þess vegna alfarið að minni hluti nefndarinnar hafi ekki gert allt sem hann gat til þess að reyna að ná sáttum í málinu en við beygjum okkur ekki, hv. þm. Pálmi Jónsson, í duftið fyrir tillögum samgrh. og ríkisstjórnarinnar í þessum efnum þar sem kjördæmum landsins hefur aldrei verið jafnmismunað og nú. Við féllumst ekki á það og vorum ófáanlegir til þess. En einstakir og nógu margir stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar hafa fallið í þá gryfju.
    Virðulegi forseti. Minni hluti samgn. flytjur nál. og brtt. eins og ég hef vikið að og ég tel rétt að lesa það nál., virðulegi forseti, en í því segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Minni hluti samgöngunefndar gerir miklar athugasemdir við afgreiðslu meiri hlutans á vegáætlun fyrir árin 1995--1998.
    Sérstakt framkvæmdaátak í vegagerð. Minni hlutinn telur að þörf sé á verulegu átaki í uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Að mati minni hlutans hefði verið eðlilegra við ríkjandi aðstæður að tiltaka ákveðna fjárhæð fyrir höfuðborgarsvæðið af því fé sem renna á til þessa sérstaka framkvæmdaátaks í vegamálum en skipta því er eftir stóð milli kjördæma landsins eftir þeirri almennu skiptireglu sem Vegagerðin hefur beitt undanfarin ár. Þess í stað ákvað ríkisstjórnin að tillögu samgönguráðherra að miða skiptingu fjármagns vegna þessa sérstaka átaks við íbúafjölda í kjördæmum landsins, þó þannig að höfuðborgarsvæðið væri álitið sérstakt kjördæmi í þessum skilningi. Minni hlutinn harmar það að ekki hafi tekist samkomulag í nefndinni og við samgönguráðherra um farsælli lausn í málinu.`` --- Minni

hlutinn harmar það, hv. þm. Pálmi Jónsson, að ekki hafi náðst samkomulag við meiri hlutann og hæstv. samgrh. í þessu máli eins og við reyndum æ ofan í æ meðan þetta mál var á dagskrá.
    ,,Mikið hefur verið látið með þá fjárhæð, 3,5 milljarða kr., sem ríkisstjórnin segir að eigi að verja í þetta átak á næstu árum. Ef málið er skoðað kemur í ljós að þessi fjárhæð stenst engan veginn þar sem verið er að færa hluta af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar yfir í ríkissjóð sem lánar þá svo aftur út til sérstaks framkvæmdaátaks í vegamálum. Hinar raunverulegu auknu tekjur til vegagerðar eru því mun minni en framangreind fjárhæð segir til um.
    Stórverkefnasjóður. Við umfjöllun um vegalögin í nefndinni í fyrra kom fram að gert yrði ráð fyrir áframhaldandi ferjurekstri við Ísafjarðardjúp, sbr. ákvæði til bráðabirgða, og að lagt yrði fram fjármagn til uppbyggingar ferjubryggja í því sambandi. Það er dæmigert fyrir alla framgöngu ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili að nú, tæpu ári seinna, er lagt til að ferjurekstur þar verði nánast aflagður en í staðinn verði Djúpvegur gerður að stórverkefni. Minni hlutinn telur afar óeðlilegt að blanda saman þessum tveimur málum, þ.e. Djúpvegi annars vegar og ferjurekstri við Djúp hins vegar. Það eigi að vera ákvörðun heimamanna en ekki Vegagerðarinnar hvort þeir telja rök fyrir áframhaldandi rekstri á ferju eftir að átak hefur verið gert í vegamálum.``
    Við víkjum aðeins að Hvalfjarðargöngunum en þar segir: ,,Verði af gerð jarðganga undir Hvalfjörð þarf 800 millj. kr. til lagningar tengivega að göngunum. Hvergi er gert ráð fyrir því fjármagni í vegáætlun þótt allar líkur séu á að hefjast verði handa við þær framkvæmdir þegar næsta haust.
    Samhliða áliti þessu leggur minni hluti nefndarinnar fram breytingartillögur við vegáætlun sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.``
    Undir nál. rita Stefán Guðmundsson, Jóhann Ársælsson, Guðni Ágústsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, allur minni hluti samgn.
    Það er deginum ljósara að það sem mestu hefur valdið í þessum ágreiningi og átökum okkar um skiptingu vegafjár er sú uppfinning að breyta skiptireglunni og fara inn á höfðatöluregluna.
    Ég vil enn og aftur taka það skýrt fram vegna orða hv. þm. Pálma Jónssonar áðan að í upphafi í okkar nál. er skýrt tekið fram að minni hlutinn telur að þörf sé á verulegu átaki til uppbyggingar samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Um þetta erum við öll sammála. Um þetta atriði er öll nefndin sammála. En okkur greinir á um framkvæmdina og meðhöndlun þess fjár sem út af stendur. Við flytjum því hér tillögur. Það er ljóst og óhætt að segja frá því hér og kom reyndar fram í máli hv. þm. Pálma Jónssonar um óánægju í Austurlandskjördæmi þar sem þingmenn Austurlands, stjórnarandstöðuþingmennirnir, gengu af fundi og tóku ekki þátt í afgreiðslu þessa máls. En það vil ég segja hv. þm. Pálma Jónssyni að það eru fleiri en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Halldór Ásgrímsson af landsbyggðarfólkinu í dag sem eru óánægðir með þessa skiptitölu sem fundin hefur verið upp, svokallaða höfðatölureglu. Ég hef trú á því að hv. þm. Pálmi Jónsson verði ekki kominn marga kílómetra inn í kjördæmi sitt þegar hann finnur andúð fólks á þessum vinnubrögðum. ( GÁ: Hann varðar ekkert um kjósendurna.) Þó hv. þm. Pálmi Jónsson láti senn af þingmennsku þá veit ég það að honum verður áfram annt um íbúa síns gamla kjördæmis, það er mér ljóst, og þess vegna mun honum svíða sárar þegar hann finnur andúð fólks á þessari skiptitölureglu. (Gripið fram í.) Já, ég skal koma að því síðar, hv. þm.
    Í þeirri brtt. sem minni hlutinn flytur á þskj. 896 erum við að reyna af veikum mætti að leiðrétta það ósamræmi sem komið hefur upp á milli kjördæma miðað við þá reglu sem menn hafa ákveðið að leika eftir. Tillaga okkar byggist einfaldlega á því að ekkert kjördæmi fái minna fjármagn til framkvæmda en það hefði fengið samkvæmt eldri skiptitölureglunni. Það er meginhugsunin í þeirri tillögu sem við hér flytjum að ekkert kjördæmanna fari verr út úr þessum skiptum en það hefði fengið ef gamla skiptitölureglan hefði verið viðhöfð.
    Við erum hér að tala um að heimild verði veitt til lántöku upp á 297 millj. kr. sem verði nýtt á þessum fjórum árum. Það mundi þýða að á þessu ári mundi hlutur Vesturlands hækka um 15 millj. kr., hlutur Vestfjarða um 35 millj. kr. og hlutur Austurlands um 42 millj. kr. Árið 1996 fengi Vesturland í sinn hlut 9 millj., Vestfirðir 40, Austurland 42 millj. kr. Árið 1997 fengi Vesturland 14 millj., Vestfirðir 21 millj. og Austurland 34 millj. Og árið 1998 fengi Vesturland 9 millj., Vestfirðir 14 millj. og Austurland 23 millj. kr.
    Þetta eru þær tölur sem reiknaðar hafa verið út fyrir okkur og mundu leiðrétta það, eins og ég hef sagt áður og vil ítreka enn og aftur, að jafna hlut kjördæmanna við þær leikreglur sem meiri hlutinn og hæstv. samgrh. hafa fundið upp til að leika eftir. Ég vil trúa því að þingmenn hér inni verði nægjanlega margir til að samþykkja þessa tillögu og hafi skilning á því réttlæti sem hér er reynt að koma fram.
    Það er rétt að víkja aðeins nánar að þessu sérstaka átaksverkefni sem varð til þess að við fyrst og fremst náðum ekki saman í þessu máli. En áður en ég vík að því þá vil ég undirstrika að auðvitað er það fleira sem kemur til. Við finnum til með því að það vantar verulega mikið fé, bæði í tengivegi og safnvegi. Það er átakanlegt hvað þessa vegaflokka skortir mikið fjármagn. Það er nánast ógerningur að lagfæra þessa vegi með þeim tækjum sem Vegagerðin hefur í dag vegna þess að allt efni og ofaníburð vantar í þessa vegi. Það er ekki stætt á því lengur en að taka á þessu máli og auka verulega hlut þessara vegflokka með framkvæmdafé. Það er óásættanlegt annað en að verða við því.
    Ég hefði líka viljað fara yfir framkvæmdir til brúa, viðgerða og breytinga á brúm á þjóðvegi 1

vegna þess að það er öllum ljóst sem keyra þennan þjóðveg að einhverjar almestu slysagildrurnar á þjóðveginum í dag eru þessar hættulegu brýr, einbreiðu brýr. Á þessu máli verður að taka, en því miður er allt of lítið gert af því af hálfu samgrn. að þrýsta á og gera kröfur til þess að á þessum málum verði tekið.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson fór ítarlega yfir vegáætlunina þannig að ég þarf ekki að gera það í löngu máli og mun ekki gera, nema ég fari í það síðar í dag ef ástæður verða til þess. Hann minntist á stórverkefnin og það er rétt að stórverkefni var tekið inn í við Djúp sem er Djúpvegur, sem, ef ég man rétt, mun kosta um 1,2 milljarða að byggja upp.
    Hv. þm. vék einnig að jarðgöngum undir Hvalfjörð. Eftir þeim fréttum sem við höfum fengið af því þá er trú manna að framkvæmdir hafi ekki verið nær því en nú að geta hafist og þá trúlega í haust. En ef svo yrði að framkvæmdir við jarðgöng mundu hefjast í haust þá þarf hvorki meira né minna af vegafé en 800 millj. kr. til þess að leggja strax í þær framkvæmdir sem þarna eiga að fara fram. Það er upphaf verksins, vegtenging að jarðgöngunum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. og frsm. meiri hlutans: Hvar í vegáætluninni er gert ráð fyrir þessum 800 millj. kr. sem meiri hluti nefndarinnar, Vegagerðin og ríkisstjórnin eru öll með miklar væntingar um að þessar framkvæmdir geti hafist í haust? Ég vænti þess að sá sem leysir hæstv. samgrh. af, hæstv. ráðherra Þorsteinn Pálsson, skýri okkur frá því hvernig með þessar 800 millj. kr. verður farið.
    Hv. þm. og frsm. meiri hlutans sagði einnig að þær hugmyndir og ákvarðanir núna um skiptitöluregluna á þessu sérstaka átaksverkefni upp á 3,5 milljarða væri ekkert nýtt mál og væri ástæðulaust fyrir okkur í minni hlutanum að gera verður út af og vitnaði í fjárveitingar sem fyrr hafa verið veittar sem sérstakt átaksfé. Ég verð að segja hv. þm. það að þær tilvitnanir sem hann kom með eru alls ósambærilegar og ef eitthvað er þá styðja þær einmitt þann ágreining sem við gerum út af þessu máli.
    En upphaf þessa máls, með þessa 3,5 milljarða og þetta sérstaka átaksfé, var það að hæstv. forsrh. lagði til að 3,5 milljörðum yrði veitt sem sérstakt átaksverkefni til vegagerðar á fjórum árum. Reglan sem hann var með og lagði fram var á þann veg að helmingur fjárins færi til Reykjavíkur, hinn hlutinn færi í önnur kjördæmi landsins. Ekki þó til Reykjavíkur heldur til Stór-Reykjavíkursvæðisins eða höfuðborgarsvæðisins, svo ég komi því nú rétt frá mér, held ég að hann hafi orðað það.
    Það var síðan ríkisstjórnin að tillögu hæstv. samgrh., Halldórs Blöndals, sem breytti þessari reglu frá því að hæstv. forsrh. hafði lagt hana fram og gerði tillögu um að höfðatölureglan yrði látin gilda sem auðvitað mismunar alveg herfilega milli kjördæma. Ég vil taka það hér fram vegna þess að menn hafa gert mikið úr þessu átaki sem ber auðvitað að þakka, að fá 3,5 milljarða til framkvæmda í vegamálum, þá megum við ekki gleyma því að hvorki meira né minna en 1,7 milljarðar kr. af þessu fjármagni eru teknir beint af orkugjaldi bifreiða, af bifreiðaeigendum --- 1,7 milljarðar. Ný skattlagning á bifreiðaeigendur. Þannig að það er ekki eins og þessir peningar hafi dottið af himnum ofan. Nei. Teknir beint úr vasa bifreiðaeigenda --- 1,7 milljarðar. Afgangurinn tekinn að láni sem mun auðvitað síðar verða til þess að skerða framkvæmdafé til vegamála.
    Ég verð að segja það, hv. frsm. Pálmi Jónsson, vegna þess að hann vék að því hvort hlutur Norðurl. v. mundi eitthvað lagast við þær hugmyndir sem minni hlutinn leggur fram. Það er nú svo að þegar maður er að vinna í þingnefndum og hér á Alþingi þá er ekki ætíð hægt að vera svo staurblindur að maður sjái ekkert út fyrir sitt eigið kjördæmi. Þannig er vitaskuld ekki hægt að vinna í nefnd. Hins vegar get ég sagt það að strax þegar þessar hugmyndir komu fram frá hæstv. forsrh. þá lét ég reikna það út fyrir mig hvernig þetta kæmi út miðað við landið allt, miðað við það að helmingur fjárins hefði farið á höfuðborgarsvæðið og hinn helmingurinn farið út á land. Ég fékk þetta reiknað út fyrir mig eftir þeirri reglu að höfuðborgarsvæðið, suður fyrir Straum, fengi 50% fjárins, en hinn hlutinn, 50%, skiptust á milli kjördæma samkvæmt núgildandi reiknireglu. Þar kemur nefnilega fram, ef þessi aðferð er skoðuð, að það hefur í mínum huga, a.m.k. þau ár sem ég er búinn að starfa og lengst af verið í samgn., hefur það aldrei sannað mér betur heldur en hversu skiptitölureglan sem Vegagerðin hefur unnið eftir er rétt og réttmæt vegna þess að ef það hefði verið gert og sú skiptitala verið notuð þá kemur það ljóslega fram að hlutur þeirra kjördæma landsins sem langverst eru sett samgöngulega séð, sem eru Austfirðir, Vestfirðir og Vesturland, hefðu fengið langmesta leiðréttingu eftir þessari reglu. Langmesta leiðréttingu. ( Gripið fram í: Að ógleymdu höfuðborgarsvæðinu.) Hv. þm., ég var að vitna til þeirra leiða sem hæstv. forsrh. stakk upp á. Að höfuðborgin fengi helminginn af öllu fénu og hinu yrði skipt út. Það var hugmynd hæstv. forsrh. og því lét ég reikna þetta út fyrir mig til þess að sjá hvernig þetta skiptist og þá kemur það svona út, að það er stóraukin hlutdeild þessara kjördæma með vegafé.
    Auðvitað var það þessi leið sem menn áttu að fara. Ef samgn. hefði fengið að vera í friði og fengið að vinna þetta mál þá fullyrði ég það --- eða ég fullyrði ekki en ég trúi ekki öðru en að menn hefðu farið þessa leið. En því miður greip hæstv. núv. samgrh. í taumana og breytti reglunni á þann veg að höfðatölureglan skyldi gilda sem mismunar kjördæmum alveg herfilega eins og ég hef áður sagt. Enda kom það í ljós strax og starfsmenn Vegagerðarinnar komu á fund nefndarinnar til þess að fara yfir þessi mál og þessar hugmyndir voru komnar fram, þá var strax --- ég man ekki hvort það var á öðrum fundi eftir að þessi hugmynd kom fram, þá komu starfsmenn Vegagerðarinnar með leiðréttingu á þessum reiknitölureglum og þar segir:
    ,,Skipting fjár á kjördæmi. Fjármagn til almennra verkefna og bundið slitlag í stofnbrautum skiptist á kjördæmi eftir eldri reglum. Fjármagn til framkvæmda vegna atvinnumála frá 1992, 450 millj., skiptist eins og í gildandi vegáætlun.`` --- Síðan segir: ,,Fjármagn til framkvæmdaátaks`` --- þessar 3.500 millj. kr. títtnefndu ,,skiptist samkvæmt íbúatölu. Við skiptingu þess er höfuðborgarsvæðið tekið sem ein heild þó í tveimur kjördæmum sé og því reiknaður skattur sem einu kjördæmi. Á árinu 1995 skal þó fyrst tekið frá fjármagn af þessum lið til Vestfjarða og Austurlands að því marki að heildarfjármagn þessara kjördæma verði hið sama og í gildandi vegáætlun.`` --- Og síðan segir: ,,Því sem þá er eftir skipt milli annarra samkvæmt íbúatölu þeirra.``
    Sem sé, þá er enn og aftur höggvið að hinum kjördæmunum og það væri gott ef hv. frsm. nefndarinnar og þingmaður Norðurl. v. veitti þessu athygli, að þá er enn vegið að þessum kjördæmum. En hver skyldi ástæðan hafa verið fyrir þessum breytingum? Það sáum við þingmenn auðvitað sem vorum hér í húsinu. Við sáum hvað hér fór fram í hliðarsölum þinghússins. Það var verið að versla í þessu máli. Þetta var sú verslun sem fór fram og varð til þess að meiri hluti náðist í samgn. þingsins til þess að leggja þetta fram. Það eru ekki vinnubrögð að mínu skapi og ég harma hvernig að þessu öllu hefur verið staðið.
    Þessi tillaga okkar um leiðréttingu er upp á 297 millj. kr. á fjórum árum og ég bað og reyndi að ræða um það við hæstv. samgrh. hvort hann gæti orðið við ósk okkar um það að reyna að leiða þetta mál saman þannig að við gætum náð samstöðu. Því hafnaði hann. En hún þýðir ekki stóra upphæð, hún er rétt um 1% af fjármagninu sem við erum að skipta, til þess að náðst hefði sátt og samstaða um skiptingu þessa vegafjár. Það er allt og sumt. Það er auðvitað réttlætismál hvað svo sem einhverjum kjördæmum líður, þá er það sanngirnismál þegar út í þetta er farið að reyna að sjá svo til að ekkert af kjördæmunum fái minna fjármagn til framkvæmda en þau hefðu fengið samkvæmt eldri skiptitölureglunni. En þarna er þeim greinilega mismunað, þessum þremur kjördæmum, Vestfjörðum, og er þó ekki á bætandi samgöngumálin þar, Austfjörðum, ég tala nú ekki um samgöngumálin þar, ástand þeirra, og Vesturlandi. Þetta er sú tillaga sem minni hlutinn reyndi trekk í trekk að leiða hér fram til að það gæti orðið sátt um afgreiðslu vegamála. Svo kemur hv. þm. og frsm. nefndarinnar í frumræðu sinni og heldur hér yfir okkur ræðu með alls kyns ónotum og dylgjum og heldur að það verði til þess að liðka fyrir framgangi þessa máls í dag. Það vil ég segja honum, virðulegi forseti, áður en ég lýk máli mínu, að það er misskilningur hjá hv. þm., hann kom því aðeins svo fyrir að hér verður umræðan miklu lengri heldur en annars hefði þurft að verða.