Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 11:48:17 (5117)


[11:48]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að harma að það skuli vera staðið að þessu máli með þeim hætti sem raun ber vitni. Mér fannst ræða frsm., hv. þm. Pálma Jónssonar, afar ómálefnaleg og mér fannst hann rifja upp fortíðina með þeim hætti að það verður ekki hjá því komist að leiðrétta ýmislegt af því sem hann sagði.
    Það er staðreynd að hér hefur ríkt bærilegt samkomulag á Alþingi um skiptingu vegafjár í gegnum tíðina og menn hafa fundið þar upp ákveðna skiptireglu sem er búin að gilda mjög lengi og ekki hefur verið mikill ágreiningur um, þ.e. skiptiregla sem tekur tillit til kostnaðar við vegagerðina, ástands veganna og arðsemi veganna. Það má að sjálfsögðu deila um það hvað þessir þættir eigi að vera gildir, en það hefur verið gert ráð fyrir því að vægi hvers þeirra væri einn þriðji.
    Það fór fram mikið nefndarstarf fyrir nokkrum árum þar sem áttu sæti fulltrúar allra flokka og þessi nefnd skilaði af sér og það var lagt fyrir á þingi 1990--1991. Þar skiluðu áliti þingmenn frá öllum flokkum, m.a. frá Sjálfstfl. Þar var fulltrúi hæstv. núv. samgrh., Halldór Blöndal, og þáv. bæjarstjóri og nú hv. þm. Sturla Böðvarsson. Þó að þessi till. til þál. hafi ekki náð samþykki á því þingi þá skiluðu þessir aðilar af sér til þingsins í formi till. til þál. Ég veit ekki betur en um það hafi í lokin náðst prýðileg samstaða milli flokkanna, jafnvel þó að nokkrar fréttir hafi borist af því að núv. hæstv. samgrh. hafi verið heldur úrillur á nefndarfundum og eitthvað gert af því að skella hurðum. ( StG: Bara töluvert.) Bara töluvert segir hv. þm. Stefán Guðmunsson, sem einnig átti sæti í nefndinni.
    En hvað um það, þessi niðurstaða fékkst og það var lagt fyrir þingið og um það ríkti bærileg sátt á milli flokkanna. Ég satt best að segja hélt að um þetta væri nokkuð gott samkomulag. Nú er það svo ef maður lítur til þessarar þáltill. sem var lögð fram á þinginu 1990--1991 og lítur á þær framkvæmdir sem menn reiknuðu með á öðru tímabili, þ.e. árunum 1995--1998, þá eru það nokkurn veginn alveg sömu framkvæmdirnar að krónutölu og gert er ráð fyrir í þeirri vegáætlun sem nú er til umfjöllunar, þ.e. ef það er framreiknað. Ég tek það fram að þetta eru mínir útreikningar og það er ekki víst að þeir séu nákvæmir upp á milljón, að þá er samkvæmt þessari þáltill. reiknað með framkvæmdum upp á 13,3 milljarða en samkvæmt því sem nú er til umræðu upp á 13,5 milljarða.
    Munurinn er hins vegar sá að þá var gert ráð fyrir því að stofnbrautir, þ.e. almenn verkefni og bundin slitlög, væru 5,3 milljarðar, en samkvæmt því sem nú hefur verið lagt fram er gert ráð fyrir að almenn verkefni séu 3 milljarðar. Það vill nú svo til að stórverkefnin eru nokkurn veginn þau sömu, þar munar ekki nema 50 millj. Það er hins vegar minna á höfuðborgarsvæðið, sem nemur einum 800 millj., en síðan er það sem mestu máli skiptir að svokallað framkvæmdaátak er upp á tæplega 3,6 miljarða. Ég er ekki að halda því fram að það megi engu breyta í þessu, en ef við lítum á þessar tölur, annars vegar 5,3 milljarða og hins vegar 3 milljarða, þá er þar um ansi mikinn mun að ræða.
    Samkvæmt þeirri skiptiprósentu sem gildir þá á Austurland um 22% og ef við lítum á þennan mun upp á 2.400 millj. þá hefði það kjördæmi fengið samkvæmt gömlu reglunni út úr því fjármagni tæplega 530 millj. en fær samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir tæplega 180 millj. Þannig að munurinn er 350 millj.
    Mér skilst á hv. formanni nefndarinnar að við eigum að vera mjög sáttir við þetta. Þetta sé allt saman vel útfært og vel hugsað og alveg í samræmi við allar venjur og öll störf hér fyrr á Alþingi þó það sé í hróplegri andstöðu við nál. sem sömu flokkar skiluðu hér og hv. samgrh., sem því miður er veikur nú, stóð að. Svo eru menn undrandi á því að það skuli ekki allir vilja samþykkja þetta. Menn eru undrandi á því að það skuli vera einhver reiði yfir því að meiri hluti nefndarinnar og meiri hluti Alþingis skuli ekkert tillit vilja taka til athugasemda. Ekkert. Svo kemur hv. formaður nefndarinnar hér með alls konar ásakanir, væntanlega til að greiða fyrir þinglokum og til að greiða fyrir því að þetta mikilvæga mál nái fram að ganga. Mér skilst á honum að það eigi eingöngu að vera meiri hlutinn eða réttara sagt hæstv. samgrh. sem hér á að ráða. Þingið á að bukka sig eins og mér sýnist að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi gert í þessu máli. Það er kannski eðlilegt að hæstv. samgrh. sé orðinn veikur eftir allt saman.
    Nú er það svo að því er t.d. haldið fram að því er mitt kjördæmi varðar að það hafi ýmislegt annað komið til. Það hafi komið til stórverkefni milli Norðurlands og Austurlands. Það er rétt. Það var gert ráð fyrir því þegar síðasta áætlun var hér til umfjöllunar að það yrði tekið til athugunar hvort ekki væri rétt að ráðast í þann veg og jafnvel þá að fresta jarðgöngum sem ákveðið var og lagt var til í þessari sömu þáltill. af þessum sama hv. þm. og núv. samgrh., Halldóri Blöndal, að það yrði byrjað á jarðgangaframkvæmdum á Austurlandi á þessu tímabili, 1997--1998. Með leyfi forseta, þá stendur í nál. sem skilað var 1993 eftirfarandi:
    ,,Í tillögum nefndarinnar hefur verkefnum verið raðað í þrjá áfanga. Áfangi eitt, sem tekur til jarðganga sem tengja Norðfjörð, Seyðisfjörð og Hérað, hefur þegar komið inn í langtímaáætlun um vegagerð. Þar er reiknað með upphafi framkvæmda í lok annars tímabils, þ.e. árið 1998. Áætlað er að rannsóknir og undirbúningur kosti um 120 millj. kr. og taki 3--4 ár. Strax árið 1995 þarf því töluverða fjármuni til að standa undir kostnaði við boranir og fleira og þarf að gera ráð fyrir því í vegáætlun til næstu fjögurra ára. Áfangar tvö og þrjú rúmast ekki innan langtímaáætlunar sem nær fram til ársins 2002. Hins vegar þarf á þessum tíma að reikna með kostnaði við rannsóknir, einkum á jarðfræði, til að koma þeim verkefnum á svipað stig og gildir um áfanga eitt í dag.``
    Það liggur sem sagt hér fyrir að ef í þessar framkvæmdir ætti að ráðast samkvæmt því sem ætlað var þá þyrfti að koma til fjármagn til rannsókna strax á árinu 1995.
    Nú er alveg skilningur fyrir því hjá mér að það sé eðlilegt að þessum framkvæmdum seinki eitthvað miðað við ástand þjóðarbúsins. Ég geri mér grein fyrir því að hér er um gífurlegt verkefni að ræða sem er eðlilegt að taki nokkurn tíma. En ég vil benda á að það eru ýmis önnur verkefni sem eru í kjördæminu og hv. þm. Egill Jónsson hefur flutt till. til þál. þar sem skorað er á hæstv. samgrh. að sjá til þess að þeim verkefnum verði lokið fyrir næstu aldamót. Það eru verkefni upp á u.þ.b. 3 milljarða til þess að ljúka við hringveginn á Austurlandi. Hvað ætli hæstv. samgrh. hafi sagt um þennan hringveg? Hann sagði í umræðum 1991 utan dagskrár þegar hann var að svara mér vegna yfirlýsinga að því er varðar norðausturveg. Þar segir hann eftirfarandi, með leyfi forseta, þegar hann er að tala um norðausturveg:
    ,,Fram á næstu öld skal það bíða að þeirra dómi að sómasamlegar samgöngur komist á milli Norðurlands og Austurlands. Nei, mér dettur svo sannarlega ekki í hug, hæstv. forseti, að taka þau ummæli mín til baka. Slíkt er með öllu óþolandi og dæmi um það að smásjónarmið ráði ef menn vilja ekki, á þeim áratug sem nú fer í hönd, ljúka við hringveginn. Ég hefði viljað setja mér háleitari markmið í þeim efnum, en alveg er fráleitt að geyma hluta hans til næstu aldar.``
    Já, hæstv. forseti. Þetta voru stór orð og í reynd vel mælt af nýjum samgrh., að það væri ekki einungis ólíklegt að það gæti tekist að ljúka við hringveginn á þessari öld heldur væri það fráleitt. Síðan kemur þingmaður Sjálfstfl. í Austurlandskjördæmi og skorar á ráðherrann, þrátt fyrir þessa yfirlýsingu, að sjá til þess að ljúka hringveginum. Hvað gerist næst? Síðan er lögð hér fram vegáætlun. Er hún í þeim anda? Nei, hún er ekki í þeim anda. Ef andi hennar á að ríkja þá get ég reiknað með því að hringveginum verður lokið að því er varðar Austurland svona einhvern tímann um 2010, kannski 2015. Svo koma menn hér og segja að þetta sé allt saman eðlilegt. Hvers konar sjónhverfingar eru þetta? Reikna menn með því að það sé alveg sama hvað sagt er og alveg sama hvað gert er og alveg sama hvaða samningar hafa gilt á milli flokka í þessum málum, það sé bara hægt að valtra þessu áfram eins og ekkert hafi í skorist? Og koma svo hér upp á síðasta degi þingsins með alls konar dylgjur um það.
    Ég ætlaði mér ekki, hæstv. forseti, að hafa hér langt mál en ég vil þó segja það að sú tillaga sem minni hlutinn flytur gerir miklu minna en að leiðrétta það sem var ætlunin að gera samkvæmt því verki sem allir flokkar stóðu að og skiluðu af sér 1990--1991. Hún kemur ekki nema að litlu leyti til móts við það. Þar er t.d. gert ráð fyrir því að hlutur Austurlands sé leiðréttur um 140 millj. en hefði í reynd átt að leiðrétta hann um 350 millj. Þá er gjarnan sagt að á móti sé kominn vegurinn yfir Fjöllin sem í sannleika sagt, miðað við þær tölur sem hér eru til skipta, eru lítil efni á að leggja fyrir það kjördæmi. En það er vegur sem menn hafa mikinn áhuga á. Hæstv. samgrh. heldur að hann sé einn um það. En það vill bara

svo illa til að hæstv. samgrh. er eingöngu áhugamaður um þann veg en er alveg nákvæmlega sama um aðra vegagerð í fjórðungnum. Ef maður fer að tala um þetta við hann þá er hann strax kominn upp á Öxarfjarðarheiði og fer að tala um hana. Ég hef a.m.k. ekki náð neinu sambandi við þann mann þannig að að því leytinu til skiptir það litlu máli hvort hann er í salnum eða ekki. Ég ætla ekki að gera kröfur um að hann sé sóttur veikur í rúmið því ég sé ekki að það breyti nokkrum hlut. En í þessum anda ætla menn að keyra þetta mál áfram og mér heyrist á formanni nefndarinnar að hann sé afar stoltur yfir því verki og hverfi stoltur frá þinginu að geta komið þessu máli áfram með þessum hætti.
    Ég skora á hv. þm. að skoða þetta mál einn ganginn enn og líta á það málefnalega, líta á tölurnar og líta á verkefnin. Hér er ekki verið að gera tillögu um það að skera niður í öðrum kjördæmum, það náttúrlega þýðir ekki að fara að vinna með þeim hætti þegar búið er að deila út þessu fé enda eru verkefnin alls staðar mikil og þau blasa alls staðar við, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi, Austurlandi eða annars staðar. En það þarf að vera einhver sanngirni í skiptingunni og menn þurfa að taka tillit til fólksins alls staðar í landinu. Það var þess vegna sem þessi regla var sett upp. Það var vegna þess að hún var hlutlaus og tók tillit til landsins alls og með því voru menn að draga úr átökum á milli landshluta. Nú hefur verið fundin upp alveg ný regla sem gengur út á það að ef eitt ákveðið kjördæmi er fjölmennt þá skal dreifbýlið í því kjördæmi fá meira vegafé. En ef eitt ákveðið kjördæmi er fámennt þá á dreifbýlið í því kjördæmi sennilega ekkert að fá og af þessu eru menn stoltir.
    Hæstv. samgrh. leyfir sér að halda því fram að þeir sem eru á móti slíku hljóti að vera á móti því að setja vegafé í auknum mæli í hans kjördæmi. Hann kemst nú ekki lengra, hæstv. ráðherrann. Hann hefur ekki meiri yfirsýn yfir landið eða áhuga á því að skapa eitthvert jafnvægi og einhvern frið um þessi mál. En það er enn þá tími til þess. Ég geri ráð fyrir því að það gerist ekki í ræðustól á Alþingi og ég harma það hvað meiri hluti Alþingis hefur haft lítinn áhuga fyrir að líta á málið málefnalega. Það hefur t.d. verið sagt við mig að skiptihlutfallið á Austurlandi sé svona hátt vegna þess að það séu komin einhver feiknaleg jarðgöng inn í skiptihlutfallið og það sé nú nokkuð vafasamt. Það er ekkert vafasamt, það er m.a. í anda þeirrar þáltill. sem hér var flutt af öllum flokkum. Í þeirri tillögu er sagt að á öðru tímabili skuli varið til Austfjarðaganga 448 millj. og á þriðja tímabili 1.551 millj. Þar var líka sagt að til Vestfjarðaganga ætti að verja 1.496 millj. á fyrsta tímabili og 1.064 millj. á öðru tímabili.
    Ég veit ekki betur en við þingmenn Austurlands höfum stutt það af fullri einurð að í Vestfjarðagöngin yrði farið og það væri eðlilegt að það verk gengi á undan verkefnum á Austurlandi. En nú á að snúa þessu öllu við og án þess að svo mikið sem hafa fyrir því að ræða það einu sinni við þingmenn kjördæmisins hvort það séu eðlileg skipti að fara í stórverkefni á Fjöllunum í staðinn fyrir stórverkefni í göngum. Það má vel vera að við hefðum komist að þeirri niðurstöðu. En hæstv. samgrh. taldi enga ástæðu til þess að tala um það við okkur. Svo eigum við víst bara að vera nokkuð ánægðir með þetta allt saman og ánægðir með þessi samskipti. Það vill bara svo til að langlundargeðið hjá okkur, a.m.k. stjórnarandstöðunni, er ekki lengur fyrir hendi. Við teljum að búið sé að brjóta niður það sem búið var að byggja upp og búið var að koma sér saman um með slíkum hætti að ekki verði lengur við það unað.
    Ég sé það að þeir hv. þm., stjórnarliðar, sem skrifuðu undir nál. um till. til þál. sem síðan var flutt hafa ekki tekið verk sitt alvarlega. Þá munar ekkert um að breyta þessu öllu saman undir forustu ráðherrans og sennilega vill ráðherrann heldur ekkert standa við það enda skilst mér að hann hafi skrifað undir þetta nál. heldur ófús og lítur svo á að þar með sé hann ekkert bundinn af því lengur. En það er ekki sú regla sem á að gilda í samstarfi á Alþingi og samstarfi milli flokka og síst í vegamálum. Ég hélt að það væri einhver áhugi á því að standa þannig að vegamálunum að það gæti verið um það bærilegur friður.
    Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvernig þessu máli á að ljúka hér. Mér skilst að hæstv. ríkisstjórn hafi áhuga á öllum öðrum málum sem hafi meiri forgang en þetta og ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig menn hugsa sér það. Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel mikilvægt að ljúka vegáætlun en ég býst hins vegar við því að það muni svo sem ekkert gerast þó að hún bíði fram á það þing sem kemur saman eftir kosningar. Mér skilst að það sé þegar búið að bjóða út þau verkefni sem stendur til að ráðast í á þessu ári, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, og það sé gert með hliðsjón af fjárlögum og væntanlega fyrst hægt var að bjóða út þau verk þá er sjálfsagt hægt að gera það með sama hætti að því er varðar önnur verkefni. Það er verst að hæstv. samgrh. skuli ekki vera hér til þess að skýra það út fyrir okkur hversu mikilvægt það er að ljúka þessu máli. En ég vil að það sé alveg ljóst að það getur enginn reiknað með því að þessu máli ljúki í einhverjum friði eins og til þess er stofnað og að því er staðið og síst eftir ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar sem hafði framsögu fyrir meiri hlutanum.