Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 12:15:39 (5120)


[12:15]
     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef með ýmsum hætti gagnrýnt ríkisstjórn en einn maður fær litlu ráðið og þokað þegar þingmeirihluti er mikill. Það út af fyrir sig þekkist ekki þegar hv. Framsfl. er í ríkisstjórn. Þá kemur það aldrei fyrir að einstakir þingmenn þess flokks hafi uppi nokkur mótmæli. Þeir þegja alltaf þunnu hljóði og hafa sjaldnast sjálfstæðar skoðanir og fylgja að sjálfsögðu ráðandi mönnum. Þetta er það sem er kostur við okkur sjálfstæðismenn að við höfum oft burði uppi með að hafa sjálfstæðar skoðanir og reyna að koma þeim fram og það hef ég gert. Ég er að sjálfsögðu ekki sáttur við hæstv. samgrh. og tók fram áðan hvernig staða hans væri í vegamálum ef forsrh. hefði ekki dregið hann að landi. En ég legg áherslu á þennan mikla mismun milli þessara tveggja ágætu stóru flokka, annars vegar er sjálfstæði okkar sem tilheyrum Sjálfstfl. oft og tíðum, en sjálfstæðið er minna hjá flokksbræðrum hv. 1. þm. Austurl.