Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 13:39:56 (5130)


[13:39]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þetta mál. Það er ekki seinna vænna að ræða áður en þing fer heim þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í þessari deilu. Það er óhjákvæmilegt að gagnrýna í fyrsta lagi harðlega vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í sambandi við þetta mál.
    Hæstv. ríkisstjórn hegðar sér þannig og gengur fram með yfirlýsingum sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en þannig að ríkisstjórnin líti í raun svo á að kennarar og út af fyrir sig einnig opinberir starfsmenn hafi ekki sjálfstæðan samningsrétt, það þurfi ekki að ræða við þá um þeirra sérmál, það sé samið annars staðar fyrir þeirra hönd. Auðvitað getur þetta ekki gengið svona. Ríkið, hvorki sem vinnuveitandi né stjórnvald, getur hegðað sér þannig gagnvart fjölmennum stéttum í landinu.
    Hvað ætlar hæstv. fjmrh. að gera? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera? Það eru ekki mikil svör að lesa hér upp gömul tilboð sem löngu er búið að hafna. Hvað ætlar hæstv. forsrh. að gera? Hvað segir hæstv. forsrh. um stöðuna? Ætlar hæstv. forsrh. að sitja þegjandi undir þessari umræðu og senda þingið heim við þær aðstæður að 5.000 manna stétt er í verkfalli? Það verður að koma hreyfingu á þetta mál. Það er öllum ljóst að það er í pattstöðu eins og er. Skólarnir á Íslandi verða ekki reknir án kennara. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að ríkisstjórnin átti sig á því.
    Það þekkja það væntanlega engir betur en kennarar sjálfir hversu viðkvæmt það er að beita verkfallsvopninu við aðstæður eins og þeir búa við. Þannig að ummæli af því tagi sem hér hafa fallið að þeir séu í þessari deilu að misnota sér börn í baráttu sinni eru ekki sæmandi nokkrum manni. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að koma hreyfingu á þetta mál. Einhver verður að stíga skref og það er ríkisstjórnarinnar að gera það núna að stíga nógu stórt skref til að koma aftur hreyfingu á málið.