Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 13:45:40 (5133)


[13:45]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að hv. þm. Páll Pétursson hafi hafið þessa umræðu af mikilli gætni og sanngirni sem ekki er auðvelt í stöðu eins og þessari á síðasta degi þings þegar viðkvæm deila stendur yfir við fjölmenn samtök. Ég deili öllum þeim áhyggjum sem hv. þm. hafði vegna velferðar þeirra sem eiga að njóta þeirrar þjónustu sem kennarar veita í skólum landsins. Ég hef áður nefnt það að ég óttaðist að ef málið félli í verkfallsfarveg þá yrði það ekki til þess fallið að flýta fyrir lausn deilunnar. Reyndar mun það nú vera svo að ekki sé hægt að nefna nein eða a.m.k. fá dæmi um það að verkfall hafi flýtt fyrir lausn deilna og því miður er það einnig svo að á 20--30 ára bili er mjög erfitt að finna dæmi þess að verkfall hafi í raun bætt kjör ef tekinn er saman ávinningur kjarabaráttunnar og kostnaður við verkfallið. Allt er þetta afskaplega erfitt. Það er afar erfitt að finna dæmi þessa. Ég yrði mjög þakklátur ef þeir þingmenn sem fussa úti í sal með tilþrifum gætu bent á slík dæmi en þau eru ekki fyrir hendi.
    Ég fullyrði það að ríkisvaldið mun gera allt sem í þess valdi stendur til að leysa þessi dæmi. Ég veit að við eigum kannski ekki létt með að fá ráð frá þingmönnum Alþb. sem hér sitja í salnum og hafa áhuga á málinu. Þeir hafa að vísu drjúga reynslu frá 1989 um hvernig eigi að umgangast kennara en ég á ekki von á því að við munum fara eftir þeirra tillögum í þeim efnum. Þar var ekki um mjög farsæla lausn mála kennaranna að ræða. En ég vil þó undirstrika að þó að ríkisvaldið vilji teygja sig eins langt og það mögulega getur þá getur ríkisvaldið ekki leyft sér að teygja sig með þeim hætti að það raski almennri stöðu á launamarkaði. Það hygg ég að enginn þingmaður sem vill láta taka sig alvarlega geri kröfu um.