Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 13:57:52 (5138)


[13:57]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Um leið og ég þakka hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir að taka upp þessa umræðu vil ég mótmæla orðum hans um það að kennarar séu að leika sér með framtíð 60.000 nemenda. Það er fyrst og fremst óábyrg afstaða stærsta atvinnurekandans í landinu, ríkisvaldsins, sem hefur skapað þessa deilu. Fjmrh. hefur lýst því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að það sé ekki til nein launastefna hjá hæstv. ríkisstjórn og það eigi að bíða eftir niðurstöðum á markaðinum áður en menn setjast niður við samningaborðið. Þetta leyfir stærsti atvinnurekandinn í landinu sér að hafa sem afstöðu til launamála og kjaramála hjá kennurum og öðrum opinberum starfsmönnum sjálfsagt líka. Í staðinn fyrir að beita sér fyrir þríhliða viðræðum vegna þeirra framtíðaráforma að færa grunnskólann yfir á sveitarfélögin þar sem yrði tekið á þessum vandamálum sem liggja á bak við það að ekki er hægt að leysa þessa kjaradeilu þá hjakka menn hér á ónýtu grunnskólafrv. sem allir vita að búið er að setja ákvæði inn í sem þýða að frv. kemur ekki til framkvæmda fyrr en á miðju næsta ári og menn geta ekki viðurkennt að það þurfi að breyta um stefnu, draga þetta frv. til baka, ná samningi við kennara um kaup og kjör sem vísar á framhaldsviðræður þar sem menn taka á þessum framtíðarvandamálum.
    Hér er haldið áfram og öllu hleypt í uppnám, enginn veit hvernig þetta endar, af einhverjum misskildum metnaði hæstv. menntmrh. sem virðist núna vera eina ástæðan fyrir því að menn geta ekki farið í annan farveg með þetta mál.
    Það getur ekki verið um neinn varanlegan samning við kennara að ræða við þessar aðstæður. Það eru alveg hreinar línur. Það hlýtur að þurfa að semja um þau mál sem snúa að þeim atvinnurekanda sem á að taka við ef sú stefna sem menn hafa lýst yfir að eigi að taka við með því að skólar færist yfir á sveitarfélögin verður ofan á.