Áhafnir íslenskra kaupskipa

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:09:42 (5143)


[14:09]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Í því máli sem hér er til umræðu þykir mér rétt að geta nokkurra atriða sem varða þetta frv. svo og fara aðeins inn á þær umræður sem urðu hér í gærkvöldi.
    Í fyrsta lagi er þess að geta að þegar þetta frv. var samið og samgrh. kallaði aðila til þess, þá tók því miður enginn fulltrúi undirmanna samtakanna þátt í undirbúningsvinnu við frv. Þar voru tvö ákvæði einkum sem menn höfðu athugasemdir við. Annað var 6. gr. frv. sem gekk út á það að hásetar ættu að vinna jafnt í vél sem á þilfari og þegar hefðu öðlast þá pappíra sem gert er ráð fyrir samkvæmt alþjóðastöðlum og alþjóðasamþykktum um öryggi og vinnutilhögun áhafna á kaupskipum, þá er gert ráð fyrir því að þeir fengju pappíra sem titluðu þá vélaverði. Þá skarast verulega kjarasamningsákvæði annars vegar vélstjóra og hins vegar Sjómannafélags Reykjavíkur. Þessir aðilar væru þá orðnir félagsmenn vélstjórafélagsins sem unnu bæði á dekki og í vél. Þarna var því ákvæði komið inn í með sérkennilegum hætti. Sem betur fer var það tekið út.
    Í annan stað var síðan bætt við 1. gr. afar mikilsverðu nauðsynjamáli, þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Lög þessi skulu á engan hátt skerða ákvæði kjarasamninga eða önnur samningsbundin réttindi þeirra

er lög þessi taka til.``
    Þegar íslensk skip og erlend koma hér í höfn og íslensk í erlenda höfn þá er búið að ganga frá ákvæðum Alþjóðasiglingamálastofnunar og samþykktum frá 1987 þess efnis að siglingamálastofnanir viðkomandi landa hafi rétt til að fara um borð í skipin vegna eftirlitsþáttar, fylgjast með öryggisbúnaði skipsins, svo og einnig til að athuga hvort þeir aðilar sem bera ábyrgð á siglingu skipsins hafi tilskilda pappíra. Og hvers vegna skyldi þetta vera orðið? Það er vegna þess að það hefur gerst víða í Austurlöndum að aðilar hafa getað keypt sér réttindapappíra. Þeir hafa getað keypt sér pappíra sem stýrimenn eða vélstjórar og þar af leiðandi hefur oft mátt rekja ýmis alvarleg slys á olíuskipum og skipum sem hafa verið að flytja ýmsan hættulegan varning til þess að menn hafa ekki kunnað að sigla skipi og því hefur farið sem fór. Þess vegna er þetta hafnareftirlit með réttindum manna og búnaði skipa tekið upp sem er mikið nauðsynjamál.
    Hins vegar er ástæðan fyrir því að mjög liggur á að taka þetta frv. til afgreiðslu sú að nú er sífellt farið að þrengja meira að og gera meiri kröfur um að þessir pappírar séu til staðar hjá íslenskum áhöfnum kaupskipa eins og öðrum og því er þetta mjög brýnt mál. Ég tel að með þeim tveim breytingum sem gerðar hafa verið á frv. sé það mjög ásættanlegt.
    Það sem ég vildi svo aðeins koma inn á, virðulegi forseti, eru hin almennu störf þingsins og umræður einstakra þingmanna. Í gærkvöldi fékk ég heimild til þess af sérstökum ástæðum að fara af fundi og ég vildi spyrja forseta hvort það sé mjög algengt, eðlilegt og venjulegt að einstakir þingmenn komi í ræðustól og geri athugasemdir við það þó að þingmaður sé ekki til staðar eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir gerði í gærkvöldi. Hún sagði, með leyfi forseta:
    ,,Ég held að þetta mál þurfi einfaldlega miklu betri skoðun.`` --- Þ.e. þetta mál um áhafnir íslenskra kaupskipa. --- ,,Og það er ekki af tilefnislausu að samtök sjómanna eru óróleg út af þessu frv. ef að lögum verður.``
    Það er ekki rétt. Það var aðeins Sjómannafélag Reykjavíkur sem gerði athugasemdir við það. Hin samtök sjómanna voru ekkert óróleg vegna þess að það voru þau sem sömdu þetta frv. En síðan heldur hv. þm. áfram:
    ,,Ég hlýt enn einu sinni þegar málefni sjómanna ber á góma hér að auglýsa eftir þeim manni sem á þingi situr vegna þess að hann hefur verið í forustu fyrir sjómannasamtökum, hv. 16. þm. Reykv., Guðmundi Hallvarðssyni. Hvar er hann í hvert einasta skipti sem málefni sjómanna eru á dagskrá á hinu háa Alþingi?``
    Forseti. Er algengt að þingmenn tali svo þó að þeir sem ekki eru í salnum, að þingmaður úr ræðustól skuli hafa slíkt hátterni og slíkan talanda sem þennan? Það er mér gersamlega óskiljanlegt og þó ekki því að þetta er ekki í fyrsta skiptið. Þetta er nákvæmlega eins og þegar stýrimaðurinn bókaði í dagbókina að skipstjórinn væri fullur í dag. Skipstjórin bókaði þá hæsta dag að það væri merkilegt að stýrimaðurinn væri edrú þennan daginn. En þetta eru slík vinnubrögð, það er svo óþolandi hvernig þessi hv. þm. talar úr ræðustól að ég er hissa á því að forseti skyldi ekki hafa sett ofan í við þennan þingmann hvernig hann talar. Síðan heldur þingmaðurinn áfram:
    ,,Sjómenn hafa ekki átt marga málsvara í þessari virðulegu stofnun og það er alveg lágmark að þeir sem hingað hafa verið kjörnir vegna stöðu sinnar í samtökum sjómanna hirði um að fylgjast með afgreiðslu þeirra mála.``
    Ég vildi í allri vinsemd, ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að ég hef í dag gert það sem ég hef getað til að greiða fyrir hverju þingmáli á fætur öðru. Það gerði hún líka vegna þess að hún greiddi atkvæði líka með frv. og þeim breytingum sem gerðar voru á því, en kemur síðan upp í 3. umr. og fer þá að efast. Það er svo sem ekkert um það að segja, en það sem hér var sagt í minn garð er skítlegt.