Áhafnir íslenskra kaupskipa

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:17:05 (5144)


[14:17]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hvað ætli það hafi oft komið fyrir að hv. þingmenn hafi verið minntir á það að þeir hafa þingskyldur. Þingmenn skulu sækja fundi þingsins og það kemur ekki mál við mig þó að hv. þm. hafi fengið leyfi ef það leyfi var ekki kynnt í þinginu. Þess var aldrei getið að hv. 16. þm. Reykv. væri ekki viðstaddur vegna þess að hann hefði leyfi.
    Það er hins vegar ósköp eðlilegt að hv. þm. móðgist þegar minnt er á þetta því að þetta er ekki í fyrsta skipti, hæstv. forseti, þegar málefni sjómanna hafa verið hér á dagskrá að hv. 16. þm. Reykv. hefur verið víðs fjarri og það er mjög bagalegt vegna þess að það eru ekki margir sem þekkja vel málefni sjómanna.
    Hins vegar vil ég aðeins segja þetta, þennan síðasta dag sitjandi þings: Tvisvar eða þrisvar í gær var minnt á það að þingmenn væru fjarverandi. En að þingmaður af kvenkyni skuli voga sér að minna á að karlmaður sem situr á þingi sé ekki á þingi, það er móðgun. Ég man ekki betur en það hafi verið kvartað yfir fjarveru ótal þingmanna í gær, en það voru þingmenn af karlkyni sem sögðu það. Ég tek þetta ekki nærri mér. Hins vegar er það alkunna, að hvað eftir annað höfum við átt í deilum, hv. 16. þm. Reykv. og

ég, og ef tími gæfist til væri gaman að lesa úr þingtíðindum vitleysurnar sem hv. þm. fór með í sambandi við umræðurnar sem fram fóru um skip íslenska kaupskipaflotans sem sigla undir hentifána. Það voru ekki liðnir sex mánuðir frá þeirri umræðu þegar hv. þm. þurfti að éta það allt ofan í sig á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins. ( GHall: Hvað þurfti ég að éta ofan í mig?) Þau ósannindi sem hv. þm. fór með. En hér gefst ekki tími til að fara ofan í það. En ég vil bara segja þetta: Annað eins hefur verið sagt í þingræðu og það að það væri bagalegt að ákveðinn hv. þm. sæti ekki þá þingfundi sem hann á að sitja.