Vernd Breiðafjarðar

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:37:14 (5151)


[14:37]
     Sturla Böðvarsson :
    Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir sérstakri ánægju minni með að þetta frv. um vernd Breiðafjarðar skuli vera komið til lokaafgreiðslu. Þegar frv. kom fyrst fram gerði ég ýmsar athugasemdir við það og beitti mér fyrir því að heimamenn kæmu sjónarmiðum sínum rækilega á framfæri. Upphaf þessa máls var að lífríki Breiðafjarðar og náttúrufar og menningarminjar eru með þeim hætti að mjög mörgum þótti ástæða til þess að standa að verki eins og hér er gert, þ.e. að setja löggjöf um vernd þessa svæðis. Hins vegar höfðu menn uppi ýmsar áhyggjur vegna þess að þarna er verið að nýta auðlindir sjávar í Breiðafirðinum og þarna er verið að nýta margs konar hlunnindi, sem eru mikilvæg fyrir íbúana, og hefur reyndar verið gert frá fornu fari. Ýmsir höfðu áhyggjur af því að það gæti farið svo að gengið yrði of langt í því og jafnvel komið í veg fyrir að hægt væri að nýta náttúruauðlindirnar og hlunnindi.
    Hins vegar sýnist mér að hér hafi tekist þannig til með þær breytingar, sem hafa verið gerðar á frv., að það eigi ekki að hafa áhyggjur af því að of langt sé gengið heldur hið gagnstæða að það sé mjög skynsamlega að verki staðið. Ég þakka hv. umhvn. og alveg sérstaklega formanni umhvn., hv. 10. þm. Reykv., sem hefur leitt þetta mál farsællega í gegnum þingið. Það er rík ástæða að geta þess við þetta tækifæri.
    Þær breytingar sem nefndin hefur gert á frv. eru allar mjög mikið til bóta, svæðið er lítillega stækkað, fært er framar með firðinum og það er allt saman eðlilegt, í það minnsta þeim megin fjarðarins sem ég þekki best til. Ég þekki nánast hvern stein þar sem gert er ráð fyrir að stækka, að Vallabjargi, og ég tel að það sé allt til mikilla bóta.
    Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju minni með frv. og að það skuli vera komið til endanlegrar afgreiðslu.