Staðfesting ákvörðunar EES-nefndarinnar

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:57:51 (5162)

[14:57]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Enda þótt það sé e.t.v. ekki augljóst af lestri dagskrárinnar að þessi tvö mál eigi saman þá er það svo að þau eru nátengd. Það er vegna þess að þessi tvö mál varða það að verið er að flytja hluta af mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar ríkisins yfir til Hollustuverndar ríkisins og þess vegna þarf að gera breytingar á nokkrum lögum og það er gert hér í tveim frumvörpum. Þess vegna taldi ég rétt að mæla fyrir nál. um þau bæði í einu þar sem þau eru nátengd og vildi ég leggja áherslu á það.
    Fyrst mæli ég fyrir nefndaráliti á þskj. 883 og brtt. á þskj. 884 frá umhvn. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Það frv. felur í sér að breyta Hollustuvernd ríkisins til þess að auðveldara sé að taka við starfsemi mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar, þ.e. hluta hennar, en ráðuneytið lagði til jafnframt því að gerðar yrðu ákveðnar breytingar aðrar á lögunum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Umhvn. ákvað að ekki væri rétt að fallast á að gera þær breytingar allar sem frv. gerði ráð fyrir þar sem talað hefur verið um og boðað af hálfu ráðuneytisins að endurskoða eigi þennan lagabálk og taldi nefndin því eðlilegt að eingöngu yrðu gerðar breytingar nú sem taldar væru nauðsynlegar í tengslum við þennan flutning. Þess vegna leggur nefndin til að 1. og 2. gr. frv. falli brott en þær kveða á um breytingar á lagafyrirmælum að því er varðar hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Þar sem nefndin hafði ekki tíma til að fara ofan í það mál sérstaklega töldum við eðlilegt að það yrði geymt til endurskoðunar laganna. Í brtt. nefndarinnar er boðað eða áskipað eins og þar segir að þau eigi að endurskoða í heild innan eins árs frá gildistöku laganna en það er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júní 1995.
    Ég vil gera stuttlega grein fyrir þessum breytingartillögum en þær eru þó skýrðar á nefndarálitinu og leggur nefndin áherslu á það að sem minnstar breytingar séu gerðar á innra skipulagi á þessu eina ári sem lögin eru til endurskoðunar en telur eðlilegt að það þurfi að gera ákveðnar breytingar. Þess vegna er farin sú leið að fellt er út úr lögunum lögbinding fastra sviða innan Hollustuverndar ríkisins, þ.e. reglugerðarheimild er fyrir því hvernig því skuli skipa. Nú eru þar fjögur svið sem þar starfa en e.t.v. þarf að fjölga sviðunum eða taka þá viðbót sem kemur frá Siglingamálastofnun Íslands og deila henni á önnur svið. Þess vegna taldi nefndin eðlilegt að fallast á að það yrði ekki áskipað í lögum heldur mundi ráðuneytið koma því fyrir eins og best verður á kosið þetta eina ár og það yrði þá skipað í reglugerð. En eins og fram kemur og ég hef sagt nú þegar þá á að endurskoða lögin innan árs frá gildistöku laganna.
    Við föllumst einnig á að fækka í stjórn stofnunarinnar. Nú eru sjö menn í stjórn stofnunarinnar en við teljum að það sé róttækt að fækka þeim niður í þrjá nú þegar og frv. gerði ráð fyrir að umhvrn. skipaði tvo og Samband ísl. sveitarfélaga skipaði einn í stjórn þannig að það yrði þriggja manna stjórn stofnunarinnar. Við teljum eðlilegt að leggja til að það verði óbreytt að Alþingi kjósi tvo menn í stjórn stofnunarinnar auk þeirra þriggja sem frv. gerði ráð fyrir þannig að það verði fimm manna stjórn og að þessi stjórn sé skipuð eftir hverjar reglulegar alþingiskosningar.
    Eins og fram kemur af nefndarálitinu skrifar einn hv. þm. undir nefndarálitið með fyrirvara, þ.e. Tómas Ingi Olrich, og það er einmitt vegna þessa ákvæðis sem hans fyrirvari er, þ.e. hann telur að Alþingi eigi ekki að kjósa í stjórn stofnunarinnar. Í því felst hans fyrirvari. Hann leggst hins vegar ekki gegn frv. heldur er það eingöngu varðandi þetta atriði. Öll nefndin er sammála því grundvallaratriði sem verið er að gera að flytja hluta mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar yfir til Hollustuverndar ríkisins.
    Frv. gerði ráð fyrir breytingu að því er varðaði forstjóra og skipun hans. Við teljum rétt að allar endurskoðanir á því bíði og teljum að það verði að halda þeirri skipun áfram sem nú er og ég vil leggja sérstaka áherslu á það sem kemur fram á 2. bls. í nefndaráliti umhvn. og ég vil fá að lesa það, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin vill leggja áherslu á að í breytingartillögum nefndarinnar um þetta efni [þ.e. varðandi framkvæmdastjórann] felst ekki efnisleg breyting á skipun framkvæmdastjóra frá því sem er í núgildandi lögum. Því ber ekki að túlka tillöguna á þann veg að skipa beri framkvæmdastjóra til fjögurra ára eftir að breytingar þessar hafa öðlast gildi.``
    Það er þetta atriði sem við viljum leggja áherslu á þannig að núverandi skipun muni haldast að því er þetta varðar þangað til endurskoðun er lokið.
    Aðrar breytingar eru meira og minna orðalagsbreytingar að því er varðar þennan flutning og lagfæringar á lögunum til þess að hægt sé að gera þær breytingar sem ég hef nú gert grein fyrir. Ég tel ekki þörf á því að tíunda þær sérstaklega nema ef þingmenn óska eftir því þar sem ég tel að í nál. komi það skýrt fram hvað átt er við á hverjum stað. Þetta virkar e.t.v. nokkuð flókið þegar horft er á brtt. en þetta er fyrst og fremst til samræmingar við brtt. í 3. tölul., breytingarnar sem nefndin gerir á 4. gr. Ég vona að ekki þurfi að útskýra þetta nánar en ég er auðvitað tilbúin til þess ef þingmenn óska að fara nánar ofan í hverja brtt.
    Þá langar mig til að víkja að hinu frv., frv. til laga um breytingar á lögum að því er varðar þrjá alþjóðasamninga, á þskj. 386, 294. mál. Eins og þingmenn sjá þá er þarna aðeins verið að breyta orðinu Siglingamálastofnun ríkisins í Hollustuvernd ríkisins og það er verið að breyta siglingamálastjóri í Hollustuvernd ríkisins þannig að ég tel að það sé nokkuð augljóst hvað þar er átt við. En það er aðeins eitt atriði sem við gerum brtt. um og það er breyting á lögum nr. 20/1986 sem gert er ráð fyrir í II. kafla frv.

Við gerum örlitla breytingu á því. Það kom athugasemd m.a. frá Siglingamálastofnun ríkisins sem við teljum rétt að fallast á. Brtt. er um að greinin orðist svo í stað þess sem segir í frumvarpstextanum, með leyfi forseta:
    ,,Að annast mál er varða lög um varnir gegn mengun sjávar og reglugerðir samkvæmt þeim að því leyti sem þau varða skip og búnað þeirra samkvæmt reglum sem umhvrh. setur.``
    Þetta þýðir að það er tekið alveg ótvírætt fram að Siglingamálastofnun sér um þann þáttinn sem varðar mengunarvarnabúnað og búnað á skipum. Það er það sem verður áfram eftir hjá Siglingamálastofnun, það er sá hluti sem flyst ekki yfir. Ég vil fá að lesa, með leyfi forseta, úr bréfi Siglingamálastofnunar þar sem þetta er skýrt, til að þingmönnum sé ljóst hvað þarna er verið að gera:
    ,,Ástæðan fyrir framangreindri tillögu er sú að lög og reglur um mengunarvarnabúnað skipa, sem getið er í umræddu frv., byggja á alþjóðasamningi frá 2. nóv. 1973 um varnir gegn mengun sjávar frá skipum (MARPOL). Þessi alþjóðasamningur tekur til fjölmargra atriða sem varða smíði og búnað skipa. Ákvæði samningsins eru, að því er varðar sumar gerðir skipa, ekki takmörkuð við mengunarvarnabúnað skipanna heldur taka til fjölmargra annarra atriða svo sem niðurhólfunar og lekastöðugleika. Ákvæðin eru á þann hátt hliðstæð ákvæðum annarra alþjóðasamninga sem Siglingamálastofnun annast framkvæmd á, sbr. 3. og 4. tölul. 2. gr. framangreindra laga um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20/1986. Af þessum sökum er óeðlilegt að takmarka starfssvið stofnunarinnar, að því er varðar lög og reglur um varnir gegn mengun sjávar, við eftirlit með mengunarvarnabúnaði skipa eingöngu.``
    Þess vegna fellst nefndin á þessa brtt. svo það sé ótvírætt að það sé áfram hjá Siglingamálastofnun ríkisins þar sem það er talið eðlilegt að verði áfram. Það var raunar ætlunin með þessum brtt. að breyta því ekki en til þess að þetta sé skýrt þá fellst nefndin á þessa brtt.
    Að öðru leyti mælum við með að það frv. verði samþykkt með þessari einu brtt. og eins og ég sagði áðan að 293. mál verði samþykkt með þeim brtt. sem nefndin gerir tillögu um og leggur auðvitað áherslu á að endurskoðun laganna verði hraðað svo hægt verði að standa við það að nýtt frv. líti hér dagsins ljós fyrir lok næsta reglulega þings þannig að þingið geti samþykkt ný lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    Ég vil taka það fram að við leggjum einnig til að það verði ekki áskipað í lögum að þessi lög, ef þau hljóta staðfestingu, verði felld inn í heildarlög vegna þess að okkur var sagt að þetta væri mikil vinna og kostaði mikla peninga að gera það og við teljum eðlilegt að það verði gert þegar heildarendurskoðun er lokið. En ég lít svo á að ég sé búin að mæla fyrir þessum brtt. en tek það fram, virðulegur forseti, að ég vil gjarnan svara fyrirspurnum ef eitthvað er óljóst að því er varðar þessa brtt. sem við leggjum til þar sem ég hef farið nokkuð hratt yfir sögu.