Tekjuskattur og eignarskattur

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 15:17:44 (5165)


[15:17]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég er með fyrirvara við það frv. sem hér er til umræðu og sá fyrirvari snýr að 1. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Reki vinnuveitandi hópferðabifreið til að flytja starfsmenn sína til og frá vinnu teljast hlunnindi starfsmanna af slíkum ferðum þó ekki til skattskyldra tekna.``
    Það sem hér er á ferðinni að mínu viti er mikil mismunun fyrir launþega í landinu þar sem gert er ráð fyrir því að einungis þeir sem reka bifreið af tiltekinni stærð, þ.e. hópferðabifreið fyrir lágmark 10 manns, njóti slíkra hlunninda eins og hér er um getið. Það er hægt að benda á dæmi þess t.d. á stórum vinnustað eins og í álverinu, að þar geta verið tveir verktakar, undirverktakar, að störfum. Annar er nógu stór til þess að reka slíka hópferðabifreið fyrir 10 manns og þá njóta starfsmenn þess verktaka þessara hlunninda. Síðan getur verið annar verktaki sem er kannski með 5--6 manns í vinnu og getur því ekki rekið slíka bifreið og þeir starfsmenn mundu ekki hljóta þau hlunnindi sem hér um ræðir. Hér er um æpandi mismunun að ræða milli launþega sem ég tel ófært.
    Fulltrúar launþegahreyfingarinnar komu á fund efh.- og viðskn. í gærkvöldi og voru inntir eftir þessu, en því miður höfðu þeir ekki haft tök á því að kynna sér þetta mál þannig að þeir gátu ekki gefið afstöðu sína upp þó að þeir almennt teldu að mikil mismunun færi falin í hlunnindamálum almennt í launasamningum, utan fulltrúi ASÍ sem tók undir það að þetta væri ekki eðlilegt. Ég hef því leyft mér að undirbúa brtt. við þessa grein. Hún er að vísu ekki tilbúin en henni verður dreift síðar á fundinum, þar sem gert er ráð fyrir því að þeir sem reki bifreið til að koma starfsmönnum sínum til eða frá vinnu að þeir starfsmenn þess vinnuveitanda njóti slíkra hlunninda og einnig þeir sem fá greitt gjald til þess að komast til og frá vinnu. Þannig er t.d. með mjög stóran hóp launamanna hjá varnarliðinu. Þar starfa sennilega um 200 manns sem fá greitt svokallað rútugjald til þess að koma sér í vinnu og það er að fullu skattlagt á meðan þeir aðilar sem hafa tök á því að reka hópferðabifreið yfir tiltekinni stærð, þeirra starfsmenn njóta þessara hlunninda.
    Þetta er auðvitað í hróplegu ósamræmi við t.d. það frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér hefur verið rætt um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins þar sem segir að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Þannig að mér þykir eðlilegt að þessi breyting sé gerð á þessari grein og Alþingi móti ekki þá stefnu að mismuna þegnum sínum þó að það hafi komið hér fram um stjórnarskipunarlögin að inni í þeim er gert ráð fyrir því furðulega nýmæli, ef ég má orða það svo, að viðurkenna jákvæða mismunun kynjanna. Ég hef reyndar aldrei vitað til þess fyrr að löggjafarþing með opin augu og opnum huga taki þá stefnu að mismuna kynjum.