Tekjuskattur og eignarskattur

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 15:22:20 (5166)


[15:22]

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég skrifa undir þetta nál. efh.- og viðskn. með fyrirvara eins og fleiri hv. þm. og vil gera lítillega grein fyrir honum. Hann snýr sérstaklega að 1. gr. og ég get tekið undir það sem hér hefur þegar komið fram í umræðunni, að það er okkar skoðun að frágangurinn á því máli sé alls ekki með þeim hætti sem æskilegt væri. Vissulega er þarna verið að koma til móts við gagnrýni sem sett hefur verið fram á það fyrirkomulag sem í gildi er að telja ferðir til og frá vinnu, jafnvel þó að þær séu á vegum vinnuveitanda og við sérstakar aðstæður sökum þess að menn eigi langt að sækja vinnu, til tekna eða hlunninda og hafa komið upp mörg dæmi í nefndinni um hversu ankannalega það geti komið út. Til að mynda að ef fyrirtæki eru sameinuð eða starfsemi breytist með einhverjum þeim hætti að það er bersýnilega hagstætt viðkomandi aðilum en kallar á flutning á starfsmönnum til og frá heimili og vinnustaðar að þá skuli það allt í einu eiga að fara að teljast sérstök hlunnindi og fríðindi fyrir viðkomandi starfsmenn sem áður gátu kannski sótt vinnu í sínu nánasta umhverfi. Ýmis slík dæmi hafa komið upp, til að mynda þar sem fiskvinnslufyrirtæki eða önnur slík hafa sameinast milli byggðarlaga og einhver hluti starfsmanna býr við þær aðstæður að þurfa að færa sig á milli.
    Þarna hefði að mínu mati þurft að útbúa annaðhvort nánari reglur í lagagreininni sjálfri eða ganga frá því með heimildarákvæðum að fjmrh. væri heimilt að undanþiggja slík ferðalög eftir nánari reglum sem settar væru. Okkur er að vísu ljóst að þarna þarf að vanda sig gagnvart öllum skilgreiningum og þetta er nokkuð flókið tæknilegt úrlausnarefni að leysa þannig að vel fari. En það er ekki hægt annað en hafa á þann fyrirvara að frágangur málsins eins og hann er hér er engan veginn nógu góður. Í honum getur falist veruleg mismunun og mjög óréttmæt í raun og veru, svo sem eins og á grundvelli þess eins hversu stór bifreiðin er sem flytur fólk til og frá vinnustað.
    Að öðru leyti er þetta frv. einn af mörgum fylgifiskum kjarasamninga og ég hef þegar gert grein fyrir okkar viðhorfum í þeim efnum við 1. umr. málsins og hef þar ekki mörgu við að bæta. Í því felast nokkrar lagfæringar. Í brtt. á þskj. 891 felast nokkrar lagfæringar sem allar eru sjálfsagðar og vil ég þá sérstaklega nefna 1. tölul. þar sem tekið er á réttarstöðu þeirra sem búa í almennum kaupleiguíbúðum í búsetaréttarkerfinu og er löngu tímabært að koma þeirra málum í lag og ég fagna því sérstaklega að sú breyting skuli vera höfð hér með.