Vaxtalög

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 15:32:01 (5169)


[15:32]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég stend að nál. efh.- og viðskn. á þskj. 892 um þetta mál eins og reyndar öll nefndin. Það er samstaða um það í efh.- og viðskn. að mæla með þessu frv. Ég vil að vísu láta það sjónarmið mitt koma fram að æskilegra hefði verið að menn væru að ná áföngum í því að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga í miklu ríkari mæli heldur en nú horfir til þar sem eingöngu fylgir þessu frv. eða í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, viljayfirlýsing um að þau mál verði skoðuð á næstunni. En það er engu að síður þannig að ég held að fyrir þeirri breytingu sem hér er lögð til séu mörg rök. Það kom fram á fundi efh.- og viðskn. í gær að það er sameiginleg afstaða allra stærstu launamannasamtaka í landinu að mæla með þessari breytingu, jafnt þeirra sem gerðir voru kjarasamningar við á dögunum og hinna sem ekki voru aðilar að þeim samningi, þ.e. stærstu samtaka opinberra starfsmanna. Ég hygg að ástæðan sé ósköp einfaldlega sú að samtök launafólks hafa upplifað það með mjög sterkum hætti á undanförnum árum að sú lánskjaravísitala sem í gildi hefur verið, þar sem launaþátturinn hefur vigtað sérstaklega inn í, hefur í raun verið eins og hengingaról um háls verkalýðshreyfingarinnar í allri hennar kjarabaráttu. Það liggur í augum uppi að ef sá böggull fylgir skammrifi að með launahækkunum, breytingum á launatöxtum, fylgi sjálfkrafa uppfærsla á öllum fjárskuldbindingum þá er það ekki þægileg aðstaða fyrir forsvarsmenn launamanna að berjast fyrir slíkum breytingum. Þannig að sú breyting sem hér er lögð til, að eftirleiðis verði eingöngu miðað við það sem menn ætla að kalla neysluverðsvísitölu, er að þessu leyti tvímælalaust til bóta.
    Öllum er auðvitað ljóst að þó að þróunin nú, eins og hún blasir við á næstunni vonandi, sé sú og verði sú að þessi breyting sé til hagsbóta launamönnum í þeim skilningi að laun hækki meira en verðlag í landinu á næstu árum, þá geta þau hlutföll að sjálfsögðu snúist við. Það getur að sjálfsögðu gerst í fyllingu tímans að kaffi, olía og aðrar slíkar vörur taki til við að hækka meira heldur en laun og aftur komi hér dimmir dagar tímabils þar sem hlutföllin snúi þannig að þessi vísitala mæli þá í raun og veru launafólkinu í óhag. En eftir stendur þá a.m.k. þessi þáttur, sem er jákvæður í sjálfu sér, að launabreytingarnar sem slíkar, umsamdar launahækkanir, vigta ekki með beinum hætti inn í verðtryggingargrundvöll fjárskuldbindinganna eins og verið hefur. Engu að síður er það mín skoðun og ég held að ég deili henni með mjög mörgum, þar á meðal þeim flestum sem komu og töluðu á fundum efh.- og viðskn., að æskilegast væri að taka skref í átt til afnáms þessarar verðtryggingar.
    Hæstv. forseti. Ég hygg í sjálfu sér að það sé ekki í sjálfu sér tilefni til að hafa um þetta mikið fleiri orð. Við ræddum þetta mál nokkuð við 1. umr. og þar á meðal áhrif þessara breytinga á hugsanlegt vaxtastig í landinu og stöðuna á fjármagnsmarkaði og ég vísa til þess sem ég þar sagði. Ég vil að lokum láta það koma hér fram að það var einróma álit þeirra sérfræðinga á fjármagnsmarkaði sem komu til nefndarinnar að í raun væri afar óæskilegt að gera breytingar af þessu tagi og ég tala nú ekki um endurtekið á viðkvæmum grundvelli verðtryggingar fjárskuldbindinga í landinu eins og hér á í hlut þannig að ég vona svo sannarlega að þetta sé í síðasta skipti sem við þessu verður hróflað og í næsta skipti sem þessi mál koma á dagskrá þá verði það til þess að lögfesta afnám verðtryggingingar á fjárskuldbindingum.